Með því að fjölga jöfnunarsætum þingmanna væri hægt að jafna vægi atkvæða milli flokkanna sem bjóða fram í næstu alþingiskosningum. Í síðustu þremur alþingiskosningum hefur vægið ekki verið jafnt og það virðist stefna í það sama í kosningunum í haust.
Vægið ekki jafnt
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor, hefur ítrekað bent á að þingmönnum væri í lófa lagið að breyta kosningalögunum til að tryggja jafnt vægi atkvæða milli flokkanna. Sú breyting rekst ekki á ákvæði stjórnarskrárinnar sem kveður á um að minnsta kosti 6 kjördæmakjörna þingmenn í hverju kjördæmi. Hins vegar er kveðið á um í stjórnarskránni að til að eiga rétt á jöfnunarsæti þurfi viðkomandi flokkur að ná 5% fylgi á landsvísu. Kjördæmasætin eru 54 og jöfnunarsætin 9. Framan af tókst að ná jöfnu vægi en í síðustu þremur Alþingiskosningum hafa annaðhvort Sjálfstæðisflokkur eða Framsóknarflokkur fengið einum manni of mikið miðað við kjörgengi. Það virðist stefna í það sama í komandi kosningum samkvæmt síðustu könnun Gallup. Ef Flokkur fólksins nær ekki 5% fylgi á landsvísu fengi Sjálfstæðisflokkurinn einn aukamann á þing, og tvo ef Flokkur mannsins næði þessu marki. Og þá myndi Framsóknarflokkurinn fá einn auka þingmann miðað við kjörgengi flokksins. Þetta hefur Ólafur Þ. Harðarson bent á.
Ný kosningalög afgreidd
En er líklegt að þingið hlaupi til og breyti lögunum og fjölgi jöfnunarsætum til að tyggja jafnt vægi? Þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp um að sex kjördæmakjörnir þingmenn verði í hverju kjördæmi og að jöfnunarsætin verði 27 sem skiptist niður á kjördæmi. Þá liggur fyrir Alþingi mikill lagabálkur um ný kosningalög sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, leggur fram í samráði við formenn stjórnmálaflokkanna. Í stuttu máli er verið að steypa saman öllum lögum sem fjalla um kosningar í eina heildarlöggjöf.
„Sem mun þá eftirleiðis gilda um kosningar til Alþingis, kosningar til sveitarstjórna, kjör forseta Íslands og um þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnsýslunni er líka talsvert breytt og utanumhaldinu um kosningar. Það var ákveðið að hafa þetta undir og ekki annað. Þannig að það var aldrei ætlunin að blanda inni í þetta kjördæmaskipaninni, vægi atkvæða eða öðrum slíkum þáttum. Þá er málið talsvert annars eðlis og aðrar pólitískar víddir í því. Þá hefði þurft að efna til samstarfs stjórnmálaflokkanna í landinu um þau mál og svo framvegis. Þannig að þetta er hrein lagatæknileg endurskoðun og engu öðru blandað saman við það,“ segir Steingrímur.
Þetta er flókið púsluspil
Stefnt er að því að kosningalaga frumvarpið verði að lögum fyrir þinglok. Alþingi gæti í raun breytt ákvæðunum um jöfnunarsætin fyrir þinglok, en er það líklegt?
„Maður á aldrei að segja aldrei en það væri ævintýraleg óvænt uppákoma ef að stjórnmálaflokkunum hér tækist á örfáum dögum í annríki þinglokanna að taka það mál upp og ná saman um það. Þetta er auðvitað eitthvað sem menn þurfa að vanda. Þetta er flókið púsluspil ef þú ferð að hreyfa til þingsætum. Mér segist svo hugur að það sé líklegra að næstu stóru skrefin í þessu verði tekin í samhengi við endurskoðun sjálfrar stjórnarskrárinnar. Það er að segja að þá taki menn kosningaákvæðin sem eru í stjórnarskránni, kosningalögin og kjördæmaskipanina fyrir sem viðfangsefni og reyni að sjá fyrir sér einhverja framtíðarmynd í því. Ég held að það sé nauðsynlegt. Ég held að þetta snúist ekki bara um það að færa til einhver sæti innan núverandi kjördæmaskipunar. Það verður kannski niðurstaðan en ég myndi mæla með því að menn tækju málið fyrir í heild sinni og veltu þá jafnframt fyrir sér hvort að kjördæmaskipanin sjálf eigi að vera eins og hún er.“
Steingrímur bendir á að ýmsar hugmyndir hafi verið á lofti. Meðal annars að landið verði eitt kjördæmi.
„Ég hef ekki endilega verið talsmaður þess. Ég hef skoðað möguleikann á því að gera landið að þremur kjördæmum sem myndi ná þessu nokkuð vel. Þörfin fyrir jöfnunarsæti og jöfnun milli flokka yrði auðveldari og þörfin fyrir jöfnunarsæti minnkar eftir því sem kjördæmin eru stærri og fjölmennari og fleiri þingsæti til að dreifa. Þá þarf ekki jafn mörg laus sæti til jöfnunar í lokin því flokkarnir eru þá almennt búnir að tryggja sér innan stærri kjördæma þá þingmenn sem þér eiga rétt á. Þannig að það það verður að skoða þetta í samhengi. Jöfnunargetu kerfisins, vægi atkvæða og fjölda þingsæta í kjördæmunum. Þetta er allt samhangandi,“ segir Steingrímur.
Nánar er rætt við Steingrím í Speglinum.