„Mér fannst erfitt að fá íslenskt gott nautakjöt og þess vegna byrjaði ég á þessu,“ segir Pálmi Geir Sigurgeirsson eigandi kjötverkunarinnar Frá haus að hala. Hann sérhæfir sig í að vinna fjölbreyttar vörur úr fullorðnum mjólkurkúm.
Kjötið þarf að hanga til að verða ekki seigt
„Ég kaupi aðallega kýr frá einum bæ, Flatey. Þar þekki ég til og veit allt um aðbúnað og aðstæður dýranna. Ég rak þar veitingastað um tíma og þetta kemur svona í framhaldi af því.“ Pálmi segir að það sé ekki rétt að kjöt af fullorðnum kúm sé seigara að verra en af ungnautum. „Þetta er bara spurning um hvað kjötið fær að hanga lengi. Ég sel ekkert sem er búið að hanga skemur en þrjár vikur. Fjórar til sex vikur er best, þá er það orðið vel þurrt og mjög meirt.“
Skepnan fullnýtt
„Pælingin með því að nota mjólkurkýr er að þá ertu að fullnýta skepnuna. Hún er búin að framleiða mjólk í einhver ár og svo nýtir maður kjötið. Það hlýtur að vera umhverfisvænna en að dæla bara heyi í eitthvert naut í tvö ár og slátra því svo,“ segir Pálmi.