Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari Íslands í handbolta var að vonum sáttur með sitt lið eftir góðan sigur gegn Ísrael ytra. Leikurinn er hluti af undankeppninni fyrir Evrópumótið 2022.

Ísland vann leikinn með tíu marka mun 30-20 og var sigurinn í raun aldrei í hættu. Liðið náði snemma upp góðri forystu og mætti einbeitt til leiks, Guðmundur segir það hafa verið mjög jákvætt hversu mikið hann náði að hreyfa liðið en hann lét alla leikmenn hópsins spila í kvöld.

„Ég er bara mjög sáttur með sigurinn og hvernig við gerðum þetta. Liðið var mjög einbeitt og það voru allir klárir í þetta verkefni, það er mjög sterkt að fá einungis á sig níu mörk í hálfleik,“ sagði Guðmundur í samtali við RÚV eftir leik í kvöld.

„Það var auðvitað mjög jákvætt að ég náði að rúlla á öllu liðinu, bókstaflega. Ég náði þar með að hvíla mjög mikilvæga leikmenn sem veitir ekkert af.“

Næsti leikur liðsins er við Litáen á þeirra heimavelli á fimmtudaginn. Guðmundur segir undirbúninginn ekki vera eins og best verður á kosið.

„Það lið sem var að spila hér í gær er ekki liðið sem verður að spila í Litáen á fimmtudaginn. Þeir eru ekki auðunnir á heimavelli og það var því mjög jákvætt hvað við náðum að rúlla vel á liðinu og dreift álaginu.“

„Það lið sem bíður okkar í Litáen er miklu betra lið sem hefur haft miklu meiri tíma til að undirbúa sig heldur en við, við höfum ekki haft neinn tíma. En þetta er það sem EHF býður okkur upp á og við þurfum að komast í gegnum þetta saman sem einn maður,“ 
sagði Guðmundur að lokum.