Óskarsverðlaunin verða afhent í nótt. Bein útsending hefst klukkan 22:30 en þá verða lögin flutt sem tilnefnd eru til verðlaunanna, meðal annars lagið Húsavík úr Eurovision-mynd Will Ferrell. Myndbandið við lagið var tekið upp á Húsavík og verður afraksturinn sýndur um klukkan 22:38. Á slaginu tólf á miðnætti hefst síðan hátíðin sjálf og þá kemur í ljós hvort Gísli Darri Halldórsson hreppi hin eftirsóttu verðlaun fyrir teiknimyndina Já-fólkið.
Þótt svarthvíta myndin Mank sé tilnefnd til flestra verðlauna eða tíu eru flestir sérfræðingar sammála um að það verði kvikmyndin Nomadland sem verði sigurvegari kvöldsins.
Hún fái verðlaun sem kvikmynd ársins og að leikstjórinn Chloe Zhao hreppi hinn eftirsótta Óskar. Mikil spenna ríkir um hver verði valin leikkona ársins þótt flestir hallist að sigri Frances McDormand fyrir Nomadland.
Þá er því spáð að Chadwick Bosemen, sem lést síðasta sumar, hljóti Óskarinn sem leikari ársins fyrir leik sinn í kvikmyndinni Ma Rainey's Black Bottom.
Kórónuveirufaraldurinn setur eðlilega sinn svip á Óskarinn. Hátíðin verður aðallega á tveimur stöðum, annars vegar í Dolbý-kvikmyndahúsinu og hins vegar frá hinni sögufrægu byggingu Union Station. Þá er búið að koma upp myndveri í Lundúnum og París fyrir þá Breta og Frakka sem tilnefndir eru til verðlaunanna.