Ólöf Gerður Sigfúsdóttir leggur leið sína á hafnarbakkann og heimsækir sýningu Huldu Rósar Guðnadóttur, WERK – Labor Move í Listasasafni Reykjavíkur. Þótt sýningin láti ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn, vekur hún upp áleitnar spurningar um flókin samfélagsleg málefni á sýningarstað sem hefði ekki getað verið meira viðeigandi.
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:
Í A-sal Hafnarhússins, einum af þremur sýningarstöðum Listasafns Reykjavíkur, stendur nú yfir einkasýning Huldu Rósar Guðnadóttur. Sýningin er hluti af stærra rannsóknarverkefni sem Hulda Rós hefur unnið að um árabil, samfélagslegt verkefni sem hún kallar Keep Frozen og hverfist um hafnarsvæði og þá menningu sem þar þrífst. Verkefnið teygir anga sína víða um hafnir við Norður-Atlantshafið, en nálgun listamannsins byggir á endurteknum vettvangsferðum þar sem hún skrásetur iðju hafnarverkamanna, auk þess að skoða þá efnismenningu sem þrífst í og við hafnir, hvort sem er út frá notagildi, fagurfræði eða táknrænni merkingu. Hulda Rós vinnur þannig í anda mannfræðingsins sem fer á vettvang, myndar tengsl og safnar gögnum, og vinnur svo úr því með skapandi aðferðum myndlistarinnar.
Á sýningunni sem hér um ræðir sjáum við eitt brot afrakstri þessa marglaga rannsóknarferlis, nú með áherslu á sjávarútveg við Reykjavíkurhöfn, eða nánar tiltekið uppskipun afla úr stórum frystitogurum. Fyrir þessa sýningu hefur safnið fengið til liðs við sig Birtu Guðjónsdóttur, einn reyndasta sýningarstjórann hér landi, en hún sýningarstýrði m.a. íslenska skálanum á Feneyjartvíæringnum árið 2019. Saman mynda þær Hulda Rós og Birta sterkt framlag, ekki eingöngu til myndlistarsviðsins, heldur einnig til samfélagslegrar umræðu um þau viðfangsefni sem sýningin snertir á.
Sýningin ber yfirskriftina Werk – Labor Move og er samsett úr þremur elementum: þriggja rása kvikmyndaverkinu Labor Move, stórri innsetningu úr sex þúsund pappakössum, og vídeóverkinu Labor Love, sem staðsett er utan við sýningarsalinn, inni í safnbúðinni sjálfri. Þannig miðlar Hulda Rós vinnu sinni í formi myndlistar annarsvegar og kvikmyndalistar hinsvegar, sem saman mynda sterka umgjörð utan um viðfangsefnið og bjóða upp á marglaga lestur. Hún leikur sér að því að flakka á milli þessara tveggja miðla um leið og hún máir út mörkin milli þeirra, þannig að úr verður einskonar heimildakvikmyndalistaverk, þar sem tilraun til að fanga raunveruleikann rennur saman við skapandi túlkun hins reflexíva skrásetjara. Þessa nálgun Huldu Rósar er einnig að finna í kvikmynd hennar Keep Frozen frá 2016, sem fylgir eftir löndunarmönnum afferma frystitogara í Reykjavíkurhöfn, án þess þó að vera benlínis heimildarmynd. Myndin er sýnd reglulega á sýningartímabilinu í auglýstri dagskrá safnsins, og styður þannig við verkin sem nú eru til sýnis í A-sal.
Hulda Rós kafar ofan í sögu og menningu hafnarsvæða og safnar gögnum, reynslu og hrifum, sem hún síðan setur í fræðilegt, pólitískt og fagurfræðilegt samhengi. Rannsóknarferlinu eru gerð góð skil í vandaðri útgáfu, Keep Frozen: Art-Practice-As-Research - The Artist‘s View, sem bætir enn annarri vídd við sýninguna og gerir þá aðferðafræði sem Hulda Rós beitir í sinni myndlistarvinnu gegnsæa og aðgengilega.
Þegar gengið er inn í sýningarsalinn blasir yfir yfirþyrmandi magn af pappakössum sem staflað hefur verið upp í tiltekið munstur, meðfram veggjum og súlum, og frá gólfi upp í loft. Kannski ekki svo ólíkt því að vera stödd ofan í lest í þröngum frystiklefa, yfirfullum af þúsundum frosinna fiskikassa. Þetta eru sömu pappakassarnir, reyndar með smá útúrsnúningi ef vel er að gáð, og löndunarmennirnir þurfa að færa til með handafli þegar löndun á sér stað, einn í einu, upp úr lestum skipa yfir á hafnarbakkann, og hafa til þess 48 klukkutíma. Innsetningin er afar áhrifarík og nær að vekja upp hughrif um skala og massa, sem ég ímynda mér að eigi sér snertifleti við hina raunverulegu fyrirmynd ofan í skipalestinni. Þessir sömu löndunarmenn og koma fram í Keep Frozen myndinni leika hér einnig aðalhlutverkið í þessum 48 tíma gjörningi, sem fór fram í Leipzig árið 2016 að undirlagi Huldu Rósar, þar sem líkt eftir löndun. Þessi gjörningur, sem er afurð samstarfs milli hennar og löndunarmannanna, er svo uppistaðan í þessu kvikmyndaverki sem hér er til sýnis, og er sýnt á þremur skjáum inni í miðjum sýningarsalnum.
Um leið og gengið er inn í salinn verður hljóðmyndin grípandi. Hljóðið dregur að sér athyglina með hárri stillingu þar sem skellir, skref og einstaka orð löndunarmannanna bergmála í þessum risa pappakassahelli sem við erum stödd inn í. Sjónrænt virkar verkið næstum eins og dansverk, þar sem hreyfingar og skref mannanna mynda flæði og takt sem stundum hægist á og stundum magnast upp í samspili við hljóðmyndina. Þannig verður vinna verkamannanna að fagurfræðilegri athöfn, sem einmitt undirstrikar möguleika listarinnar að dansa á mörkum veruleika og fantasíu. En með því að eiga við hljóðið og klippa myndefnið saman á tiltekinn hátt, verður leikstýringin einmitt svo áberandi að ekki verður um villst að hér er á ferðinni listaverk en ekki heimildarmynd. Með því er Hulda Rós einmitt að hnýta í aðgreininguna þarna á milli, því skilin á milli hins hlutlæga og hins huglæga, hins vísindalega og hins skapandi, eru aldrei eins skýr og okkur hefur verið kennt.
Þá ber staðsetning verksins í Hafnarhúsinu með sér merkingarbæra sögn, en húsið var upphaflega byggt sem vörugeymsla við hafnabakkann og var síðar fyrsta byggingin til að hljóta nýtt hlutverk í því breytingaferli sem hefur átt sér stað við Reykjavíkurhöfn undanfarin ár, svokölluðu „heldrunarferli“, eða „gentrification“ á ensku. Í heldrunarferli hljóta fyrrum iðnaðarhúsnæði ný hlutverk þegar ný starfsemi ryður sér til rúms og fyrri ásýnd borgarmyndarinnar er látin víkja fyrir nútímalegri byggingum, oft þannig að fagurfræði einnar stéttar tekur yfir fagurfræði annarrarar. Hulda Rós bendir fingri í átt að þessu ferli með því að velja verkinu stað í Hafnarhúsinu, en gengur svo lengra með því að varpa upp hliðstæðum í verklegri vinnu hafnarverkamanna og verklegri vinnu listamanna, eins og sést best í verkinu Labor Love. Þetta er umræða sem gjarnan mætti taka meira pláss í íslenskri menningarumræðu en raun ber vitni.
Þá speglast bakgrunnur Huldu Rósar vel í höfundarverki hennar, en breið menntun á sviði mannfræði, gagnvirkrar hönnunar og myndlistar hefur augljóslega mótað vítt og gagnrýnið sjónarhorn hennar. Þannig skoðar hún viðfangsefnið af nærgætni og næmni fyrir siðferðislega viðkvæmum snertiflötum. Persónulegur bakgrunnur hennar og uppvöxtur í fjölskyldufyrirtæki tengdu fiskiðnaðinum gerir henni einnig kleift að sneiða hjá þeirri gryfju sem verkefnið gæti svo auðveldlega fallið í, þ.e. þegar rannsakandi, hvort sem það er listamaður eða fræðimaður, nærist á viðfangi sínu og vinnur með það í eigin þágu án þess að gefa viðkomandi rödd, eða án þess að hafa skilning á þeim reynsluheimi sem um ræðir frá fyrstu hendi. Þessi skilningur kemur bersýnilega í ljós í afar áhugaverðu samtali Birtu og Huldu Rósar, sem hægt er að horfa á á heimsíðu safnsins, þar sem einn eitt lagið bætist ofan á verkið.
Þótt sýningin sjálf sé samsett úr fáum og í raun afar einföldum einingum, er mikil vigt í henni. Ég mundi reyndar vilja kalla Keep Frozen rannsóknarverkefnið all „þykkt“ í anda mannfræðingins Clifford Geertz, því um leið og það lýsir afmörkuðum samfélagskima, hér hafnarmenningu, byggir það í senn á greiningu á stórum abstrakt kerfum, konkret smáatriðum sem og mannlegum viðföngum, sem rannsakandinn stillir saman og setur í samhengi, og bætir við eigin túlkun. Hér vinnur Hulda Rós með flókin samfélagsleg viðfangsefni eins og stéttskiptingu, alþjóðahagkerfið og heldrunarferli, þar sem hinu staðbundna er varpað upp í samhengi við hið hnattræna, á sýningarstað sem hefði ekki getað verið meira viðeigandi.