Íslenska kvennalandsliðið í handbolta hélt í dag til Slóveníu þar sem það spilar á laugardag fyrri leik sinn við heimakonur í umspili um laust sæti á HM sem verður í desember. Ein landsliðskvennanna er Sigríður Hauksdóttir, en bæði móðir hennar og amma hafa spilað fyrir landsliðið. Við hittum þessa þrjá ættliði landsliðskvenna í vikunni.
Sigríður Hauksdóttir hefur spilað í vinstra horni íslenska landsliðsins undanfarin þrjú ár. Hún á ekki langt að sækja handboltahæfileika sína. Móðir hennar er Guðríður Guðjónsdóttir ein sigursælasta handboltakona Íslandsögunnar. Guðríður spilaði 80 landsleiki og þriðja markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi og með flest mörk að meðaltali í leik. Móðir Guðríðar er svo Sigríður Sigurðardóttir. Hún spilaði 12 landsleiki í handbolta fyrir Ísland. Stjarna hennar skein skærast árið 1964 þegar hún leiddi landsliðið til Norðurlandameistaratitils og var fyrir vikið kjörinn íþróttamaður ársins fyrst kvenna það sama ár. En finnst Sigríði yngri óþægilegt að vera í landsliðinu með þessa fjölskyldusögu með sér?
„Nei, mér finnst það ekki óþægilegt. En mér fannst það smá fyndið hvað öll umfjöllum snerist um það til að byrja með. En auðvitað er þetta ótrúlega merkilegt. Ef maður spáir í því að þá er þetta ekkert algengt. Þannig mér finnst þetta bara heiður og ótrúlega gaman,“ segir Sigríður Hauksdóttir sem á að baki 19 landsleiki fyrir Ísland.
„Framan af var hún sjálf kannski í þessu aðallega fyrir félagsskapinn og ekkert endilega með það að markmiði að komast í landsliðið. Það eru ekki nema þrjú ár síðan hún fer inn í landsliðið,“ segir Guðríður Guðjónsdóttir móðir Sigríðar. Guðríður er líka fyrrverandi þjálfari Sigríðar frá því þær voru hjá Fylki.
Stór stund fyrir ömmuna
„Mér fannst það alveg stórkostlegt þegar Sigríður nafna mín komst í landsliðið. Ég klappaði bara. Þetta var bara æðislegt,“ sagði Sigríður Sigurðardóttir ættmóðirin og frumkvöðullinn stolt yfir því að nafna hennar hafi fetað í fótspor sín og Guðríðar.
Sigríður yngri upplifir þó enga pressu frá móður sinni eða ömmu. „Nei, þær hafa alltaf stutt mig rosalega mikið. En svo eru þetta líka bara aðrir tímar og boltinn er öðru vísi í dag en hann var þá. Við spilum heldur ekki sömu stöðu á vellinum, eða þær voru útileikmenn en ég er hornamaður. En ég get ekki sagt að ég hafi upplifað neina pressu beint. En vissulega einhverja athygli samt svona í kringum það.“
Mikil boltafjölskylda
„Að eiga mömmu sem þessa fyrirmynd og fá svo að fylgjast með dóttur sinni er ótrúlegt. Við erum öll að springa úr stolti, og yfir fótboltanum líka. Þar eigum við Jón Dag sem er í landsliðinu í fótbolta eins og afi hans. Þannig að lífið er bara bolti,“ segir Guðríður Guðjónsdóttir.
Guðríður vísaði þarna til Jóns Dags Þorsteinssonar systursonar síns, son Hafdísar Guðjónsdóttur. Hafdís var í handboltanum eins og Guðríður og spilaði líka með landsliðinu. Jón Dagur sonur Hafdísar fetar hins vegar í fótspor afa síns, Guðjóns Jónssonar sem spilaði tvo landsleiki í fótbolta árið 1960. Guðjón spilaði líka landsleiki í handbolta og Hafdís spilaði sömuleiðis handboltalandsleiki.
Skemmtilegt landslið í dag
En hvernig líst ættmóðurinni á kvennalandsliðið í handbolta í dag? „Þetta er skemmtilegt lið og Sigríður stendur sig vel. En hún sagði einhvern tímann við okkur Guðríði að hún ætti nú kannski ekki eftir að skora eins mikið og ég og mamma hennar þar sem hún væri í horninu,“ segir Sigríður og hlær.
„En ég hef séð miklar framfarir hjá landsliðinu. Breiddin er líka orðin svolítið skemmtileg, eldri og yngri. Það er alltaf til góða að hafa svoleiðis,“ segir Sigríður Sigurðardóttir sem enn í dag státar af því að vera eina handboltakonan sem kjörin hefur verið íþróttamaður ársins, þó 57 ár séu síðan.
Langar mikið að komast á HM
Ef Ísland hefur betur í umspilsleikjunum tveimur kemst landsliðið á HM í desember. „Við erum mjög hungraðar í það. Líka eftir Spánarævintýrið fyrir tveimur árum síðan. Við brenndum okkur þar á því að tapa fyrri leiknum illa en unnum svo seinni leikinn á heimavelli. En við erum klárlega búnar að læra af því og ætlum okkur bara að komast í gegnum þessa leiki,“ sagði Sigríður Hauksdóttir landsliðskona í handbolta.
Fyrri umspilsleikur Íslands og Slóveníu um að komast á HM verður spilaður klukkan 15:30 á laugardag. Leikurinn verður sýndur á RÚV og hefst upphitun í HM stofunni klukkan 15:00. Seinni leikurinn verður svo spilaður á Ásvöllum í Hafnarfirði á miðvikudagskvöld klukkan 19:45. Sá leikur verður sömuleiðis sýndur á RÚV.