Kristín Eiríksdóttir rithöfundur ræðir um höfundarrétt og fleira í tengslum við umræðu sem fram hefur farið undanfarið um líkindi milli sjónvarpsþáttaraðarinnar Systrabönd í leikstjórn Silju Hauksdóttur, sem sýnd er í Sjónvarpi Símans, og leikrits Kristínar, Hystory, sem leikhópurinn Sokkabandið frumsýndi í Borgarleikhúsinu árið 2015.
Pistillinn er fluttur í Víðsjá á Rás 1. Rætt var við Silju Hauksdóttur um málið í Lestinni á Rás 1, lesa má grein um það hér.
Kristín Eiríksdóttir skrifar:
Líkt eldgosi og harmi eru hugmyndir ekki varðar höfundarrétti. Ekki hugmyndir og ekki sögur, staðreyndir eða mataruppskriftir. Þannig skiptir engu máli hvenær höfundur fékk hugmynd eða hvaðan. Hvort hann fékk hana árið 2005 eða 14, heima hjá sér eða í bílnum, á wikipedia eða á leiksýningu. Það kemur út á eitt vegna þess að hugmyndir eru sameign. Listaverk aftur á móti eru ekki í almannaeigu fyrren að minnsta kosti sjötíu árum eftir andlát listamannsins, og heldur ekki vísindagreinar eða uppskriftabækur.
Það er bannað að fjölfalda verk í leyfisleysi og selja þau, en ákveðnar flækjur koma upp í sambandi við aðlögun úr einum miðli í annan, einsog til dæmis úr leiksýningu í sjónvarpsþætti. Að segja sögu sem þú hefur séð í útgefnu verki, með sömu aðferðum og vekja þannig sambærileg hughrif kostar, rétt einsog kostar að hafa málverk á vegg í sviðsmynd. Eða handgerðan bolla eða tuttugu sekúndur úr lagi.
Að borga fyrir innblástur er gömul hefð sem byggist á heiðursmannasamkomulagi: Ef við sjáum leikrit sem við tengjum við – höfum kannski verið með hugmyndir um eitthvað svipað í glósubók – og langar að vinna sjónvarpsþætti um sama efni – þá er keyptur réttur að leikritinu. Hvernig leikritið er notað er síðan mjög misjafnt. Sumir fara eftir bókinni á meðan aðrir sækja í hana innblástur. Stundum fer afleidda verkið í allt aðra átt og eina ástæðan fyrir kaupunum er sjálfsögð kurteisi við samferðafólk í listinni.
Heiðursmannasamkomulag er viðbragð stéttar í viðkvæmri stöðu. Við öll sem skrifum og vinnum við listir eigum þá sameiginlegu hagsmuni að vilja hafa einkarétt á því að breyta okkar verkum og birta í annarri mynd. Hvort sem er til þess að gera það sjálf eða selja réttinn áfram. Ekkert okkar vill lenda í því sem kom fyrir mig níunda mars, þegar ég fékk símtal um að í Menningunni á RÚV hefði verið innslag um nýja sjónvarpsþætti sem hétu Systrabönd og væru alveg einsog Hystory, leikrit sem ég skrifaði að beiðni leikhópsins Sokkabandið og var sýnt í Borgarleikhúsinu í mars 2015, og gefið út í bók síðar sama ár.
Það má sagði ég, vegna þess að enginn hefur einkarétt á þremur miðaldra konum sem hittast aldarfjórðungi eftir að hafa drepið unglingsstúlkuna Hönnu í afbrýðisemiskasti vegna stráksins Péturs eftir að hafa drukkið of mikinn landa og neyðast nú til þess að díla við það. Það má, en hér kemur einmitt ástæðan fyrir heiðursmannasamkomulaginu sem ég nefndi: Það að nota grunnhugmynd verks (eða pitch) sem er til í listrænu nærumhverfi getur valdið höfundi þess fjárhagslegu og listrænu tjóni. Þarsem erfiðara verður fyrir höfund fyrra verksins að vinna uppúr því aðlögun eða selja til þess réttinn.
Sem stóð einmitt til með Hystory, en ef ég trommaði nú upp í Menningunni og segði frá sjónvarpsþáttum um þrjár miðaldra konur sem hittast aldarfjórðungi eftir að hafa drepið unglingsstelpuna Nönnu í afbrýðisemiskasti vegna stráks sem heitir Pési, eftir að hafa drukkið of mikinn landa og neyðast nú til þess að díla við það, er hætt við að einhverjir fengju déjàvu.
En svo sá ég innslagið og hlustaði á leikstjóra Systrabanda, handritshöfunda og leikkonur tala á nákvæmlega sömu nótum og aðstandendur Hystory á æfingaferlinu. Hér er fókusinn á afleiðingar fyrir gerendur frekar en glæpinn sjálfan og hvernig þetta hefur mótað líf þeirra: að lifa með skömminni og sektinni. Þrátt fyrir cold case-ramma og lögreglurannsókn virtist semsagt söguuppleggið vera tekið beint úr leikritinu, og vera aðalatriðið í þáttunum.
Umfjöllunarefni eru ekki varin höfundarrétti. Auðvitað á ég ekki afleiðingar þess að lifa með skömm eða hugleiðingar um sekt og áhrif áfalla. Það hefur líka endalaust verið fjallað um glæpakvendi uppá síðkastið og ekki hef ég neitt sérstakt tilkall til þeirra. En að útfæra sömu söguna með sömu áherslum … má það virkilega? Miðað við að mér leið einsog hefði verið sparkað í magann á mér, þá var ég ekki lengur viss.
Það sem er höfundarréttarvarið er útfærslan, aðferðirnar, tæknin, sem er erfitt að sanna að séu þær sömu þegar verkið er komið yfir í annan miðil. Sjónvarpsþættir eru eðli málsins samkvæmt ólíkir leikriti. Leikritið Hystory var 70 mínútna langt, sett upp á litla sviðinu og í því léku þrjár leikkonur á meðan sjónvarpsþættirnir Systrabönd eru 6x45 mínútur og formið býður uppá endalausa möguleika.
Ágætis dæmi um þetta er sena í stiklunni fyrir sjónvarpsþættina Systrabönd þar sem sú með drykkjuvandamálið, Karlotta, spyr Elísabetu hvort ekki sé erfitt að eiga börn eftir það sem þær gerðu. Til þess að undirstrika þetta á Elísabet stjúpdóttur sem er jafngömul stúlkunni sem þær drápu. Þetta er hægt að útfæra mjög auðveldlega í sjónvarpi, fengin er leikkona á unglingsaldri sem fylgir Elísabetu í þáttunum, sem hlýtur að vera triggerandi fyrir manneskju í svo sterkri afneitun. Stöðug áminning.
Í leikritinu, þegar Lilja segir frá því að hún eigi börn, spyr sú drykkfellda, Begga, í hæðnistón hvernig það sé að virka fyrir hana. Svo spyr hún hvað börnin séu gömul og Lilja segir henni að strákurinn sé átta ára en stelpan fimmtán. Er hún fimmtán? spyr Begga og þær endurtaka allar: Fimmtán, já er hún fimmtán. Fimmtán. Stöðug áminning.
Þegar ég sá þættina leið mér oft einsog ég væri að horfa á afbökun á mínu höfundarverki og stundum einsog viss element hefðu verið sett í hatt og dregin uppúr aftur og ruglað og raðað. En án samhengis eru öll einstök atriði almenn. Einsog til dæmis hvíti landabrúsinn með rauða tappanum, einn af fáum leikmunum leikritsins Hystory. En hvað, er ég kannski með patent á plastbrúsa?
Alls, alls ekki. En í einmitt þessum höndum einmitt þessara stúlkna, með persónur skapaðar á einmitt þennan hátt, á einmitt þessum tíma, í einmitt þessum aðstæðum, í einmitt þessari sögu, sagðri á einmitt þennan hátt … á þessum alltof alltof langa lista sem ég tók saman yfir líkindi eða hliðstæður milli leikritsins Hystory og sjónvarpsþáttanna Systrabanda – er samt hætt við að honum hafi verið stolið.
Táknheimur höfunda mótast af ótal atriðum, reynslu, skynjun, upplifun, hugsunarmynstrum, áföllum, samfélagsstöðu og lengi mætti telja. Eitt og sér er ekkert af þessum atriðum einstakt en samankomin mynda þau heild og enduróma í höfundarrödd. Sama má segja um verk höfundarins, að þau mótast af ótal atriðum sem ein og sér teljast ekki einstök en samankomin mynda heild, sinn eigin heim. Samkvæmt höfundalögum er þessi heimur eign höfundarins en engu að síður virðist hann óvarinn, þarsem auðvelt er að snúa öllu rétt svo nægilega mikið á hvolf til þess að erfitt reynist að sanna nokkuð. Allt gæti jú verið tilviljun og allir verða fyrir áhrifum og merkilegt hvernig hugmyndir liggja í loftinu o.s.frv. Mínar lágu í loftinu fyrir sjö árum síðan, þegar ég skrifaði leikritið Hystory, og síðan hafa þær legið í bók, í bókabúðum og á bókasöfnum.
Leikritið hefur verið öllum aðstandendum Systrabanda aðgengilegt, en það var kannski sérstaklega aðgengilegt einum handritshöfundanna – handritaþróunarstjóra Saga Film, Jóhanni Ævari Grímssyni, sem átti frumkvæðið að gerð þáttanna – þegar hann frumsýndi verk í Borgarleikhúsinu á sama leikári og Hystory var frumsýnt: Kenneth Mána, sem hann skrifaði í samstarfi við Sögu Garðarsdóttur og Björn Thors. En Jóhann Ævar hefur einmitt tiltekið í tveimur viðtölum, við Klapptré og Variety, að hann hafi fengið hugmyndina síðla hausts 2014. Kannski hefur hann villst inná vitlausa æfingu og fengið hana þar, eða heyrt hana á kynningarfundinum fyrir leikárið, eða þegar hann heyrði söguna sárgrætilegu af bandarísku máli frá 1992. Málið fjallar um stúlku sem bar nafnið Shanda Sharer en þegar Shanda var tólf ára gömul, voru fjórar stúlkur á aldrinum fimmtán til sautján ára sem myrtu hana á einstaklega hrottalegan hátt að yfirlögðu ráði og hafa þær allar setið í fangelsi meira og minna síðan.
En það er mikilvægt að hafa í huga, ef fólk á annað borð vill velta fyrir sér líkindum sjónvarpsþáttanna Systrabanda við leikritið Hystory, að það skiptir engu máli hvað kveikir hugmyndir. Vegna þess að hugmyndir eru ekki varðar höfundarrétti heldur hvernig unnið er úr þeim. Ekki það sem við hugsum heldur hvernig við segjum frá því.