Lausnamótið Hacking Norðurland hefst í dag og stendur fram á sunnudag. Þar verður unnið með sjálfbæra nýtingu auðlinda á Norðurlandi. Þema mótsins er matur, orka og vatn.
Sesselja Barðdal og Ottó Elíasson, sem standa að Hacking Norðurland, sögðu frá mótinu í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Vettvangur fyrir nýsköpun
Lausnamótið stendur yfir í 48 tíma. Þar gefst fólki tækifæri til að koma með hugmynd og vinna hana áfram með öðrum þátttakendum og leiðbeinendum verkefnisins.
Lausnamótið segja þau að sé ekki einungis fyrir fólk sem hefur nú þegar reynslu af frumkvöðlastarfsemi, heldur alla sem hafa áhuga á nýsköpun á svæðinu. „Þetta er fyrir alla, og kannski erum við öll frumkvöðlar inn við beinið,“ segir Sesselja. Lausnamótið snúist um að búa til viðskiptahugmynd og fá tækifæri til að hitta og mynda sambönd við annað skapandi og hugmyndaríkt fólk.
Lausnamótið hefst á vefstofu sem verður í beinu streymi. Ottó bendir á að vefstofan sé opin öllum og þar muni meðal annars fólk úr stjórnmálum og skapandi greinum ræða um þau tækifæri sem felast í auðlindum Norðurlands.