Helga Vala Helgadóttir alþingismaður hafði frumkvæði að því að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis óskaði eftir skýrslu ríkisendurskoðunar um WOW air. „Ríkisendurskoðun er býsna harðorð í sinni skýrslu. Samgöngustofa brást algjörlega og stjórnvöld að einhverju leyti líka,“ segir Helga Vala. „Ég held að það sé alveg skýrt að Samgöngustofa þarf að taka til hjá sér,“ segir Helga Vala.
Samgöngustofa brást eftirlitshlutverki sínu varðandi fjárhag Wow air mánuðina fyrir gjaldþrot félagsins. Þetta er niðurstaða úttektar Ríkisendurskoðunar. Þá hafi Samgöngustofa tekið viðskiptalega hagsmuni flugfélagsins fram yfir eftirlitið.
Stjórnvöld fóru að fylgjast betur með rekstri WOW air haustið 2018. Sérstök ráðherranefnd samdi viðbragðsáætlun og ræddi stöðu félagsins á fimmtán fundum.
Samgöngustofa blekkti ráðuneytið
Farið er hörðum orðum um Samgöngustofu í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í maí 2018 aflaði samgönguráðuneytið upplýsinga um hvernig Samgöngustofa stæði að eftirliti með fjárhagsstöðu WOW air. Ráðuneytið taldi eftirlitinu vera ábótavant og þremur mánuðum síðar, í ágúst, var það enn ekki komið í lag. Þá fyrirskipaði ráðuneytið Samgöngustofu að sinna eftirlitinu. Samgöngustofa svaraði því til að þegar væri unnið að mati á fjárhagsstöðu flugfélagsins. Hins vegar liðu tvær vikur þangað til Samgöngustofa tilkynnti flugfélaginu að eftirlitið væri hafið. Það var 21. september.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir:
Ótækt er að stofnun veiti ráðuneyti sínu svo misvísandi upplýsingar, ekki síst þegar ástandið var jafn viðkvæmt og raun bar vitni.
Þá bendir Ríkisendurskoðun á að fjórir mánuðir liðu frá því Samgöngustofa og ráðuneytið voru upplýst um vandræði WOW air þar til ráðuneytið sendi bein fyrirmæli til Samgöngustofu um að hafa sérstakt eftirlit með fjárhag félagsins. Samgöngustofu og ráðuneytið hafi greint á um hvað teldist vera fullnægjandi fjárhagseftirlit. Rétt hafi verið hjá ráðuneytinu að veita Samgöngustofu fyrirmæli en þau hefðu mátt koma fyrr.
Eftirlitið hófst ekki fyrr en að lokinni skuldabréfaútgáfu
Þá segir í skýrslu ríkisendurskoðunar að það sé:
umhugsunarvert að Samgöngustofa virðist í einhverjum tilfellum hafa haft viðskiptalega hagsmuni félagsins að leiðarljósi í ákvörðunartöku fram yfir þau viðmið og sjónarmið sem gilda um eftirlit og aðhald.
Þessu til stuðnings er bent á að WOW hafi verið tilkynnt um eftirlitið þremur dögum eftir að skuldabréfaútboði félagsins lauk en ekki tveimur vikum fyrr þegar ráðuneytið hafði fyrirskipað það.
WOW varð gjaldþrota í mars 2019.
Samgöngustofa tjáir sig ekki að sinni
Ríkisendurskoðun sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skýrsluna 29. mars. Nefndin ákvað að þar sem fulltrúar umhverfis- og samgöngunefndar hefðu óskað eftir skýrslunni væri rétt að vísa umfjöllun um hana þangað. Skýrslan hefur ekki verið gerð opinber. Samgönguráðherra hefur ekki fengið skýrsluna í hendur og vill því ekki tjá sig um málið. Samgöngustofa vildi ekki veita viðtal um málið í dag og hyggst bíða eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hafi fjallað um skýrsluna.
Helga Vala Helgadóttir alþingismaður átti frumkvæði að því að óskað var úttektar Ríkisendurskoðunar.
Telur þú að félagið hafi átt að hafa flugrekstrarleyfi fram að gjaldþrotinu í mars 2019?
„Nei, ég tel svo ekki vera og það er alveg skýrt í lögunum. Samgöngustofa hefur ekkert val um að bregðast við. Því miður tilkynntu þau eftirlit með rekstrarhæfi WOW air mjög seint. Það eftirlit virðist hafa verið svona mjög matskennd og með viðskiptahagsmuni félagsins í huga en ekki samkvæmt þeim lagaskyldum sem Samgöngustofu bar að fylgja, þ.e.a.s að ýmist tímabundið eða viðvarandi að fella niður leyfið,“ segir Helga Vala.
Hvað með það tjón sem varð, hefði að einhverju leyti mátt afstýra því?
„Að einhverju leyti. Ég set líka aðeins spurningarmerki niðurstöðu skýrslunnar. Nú hefur hún auðvitað ekki verið gerð opinber en les um þetta í fjölmiðlum. Ég geri aðeins athugasemdir við það sem kemur fram í skýrslunni um ISAVIA og það mikla tjón þar varð. Af hverju ISAVIA leyfir þessu flugfélagi að skulda 2 milljarða án þess að bregðast við með fullnægjandi hætti. Þannig að það er ýmislegt sem þar þarf að skoða. Hvort um var að ræða einhvers konar ríkisaðstoð sem er ekki heimil samkvæmt EES-samningnum,“ segir Helga Vala.
Mun þessi skýrsla kalla á einhverjar aðgerðir eða breytingar hjá Samgöngustofu?
„Ég held að það sé alveg skýrt að Samgöngustofa þarf að taka til hjá sér,“ segir Helga Vala.