„Grunnurinn að hreyfimyndahátíðininni er að hreyfa við okkur sem manneskjum,“ segir Helena Jónsdóttir, stofnandi Physical Cinema Festival sem fer fram í miðbænum um þessar mundir.

Á hátíðinni eru til sýnis verk af ýmsum toga, sem varpað er á veggi, glugga og ýmsa fleti í almannarými miðbæjaris. Helena segir tilganginn meðal annars að tengja listgreinar undir formerkjum hreyfimynda. „Ég fór af stað með þessa hátíð fyrir tveimur árum og held hana annað hvert ár. Ég er að kynna svokallaðar hreyfimyndir og kem sjálf frá dansbakgrunni og danshönnun en vinn við myndbandsgerð eða vídeólist og kvikmyndagerð í dag. Hér er verið að sameina allar listgreinar undir þessari regnhlíf,“ segir hún. 

Sýningarstaðir eru 7 talsins; utan á Ráðhúsinu, Tjarnarbíói, Bíó Paradís, á Vatnsstíg, við Mengi Óðinsgötu, Hafnartorgi og utan á héraðsdómi Reykjavíkur. Kveikt er á verkunum klukkan 21 á kvöldin. 

Nýr leikvöllur

Að sögn Helenu er tilraunamennsku gefið verðugt rými á hátíðinni. „Okkur vantar svolítið leikvöll fyrir tilraunakvikmyndagerð að þetta sé svolítill svona leikvöllur þar sem fólk getur sýnt verkin sín tilbúin, eldri eða jafnvel í vinnslu. Þarna eru verk frá myndlistarfólki, grafíkerum, ljósmyndurum, dönsurum, leikurum, leikhúsfólki. Við sameinumst öll í þessu stuttmyndaformi svo sýni ég líka alltaf svona eina og eina heimildamynd sem fjallar um þetta efni hverju sinni.“

Þyrst í tengsl

Þá var ekki síður sóttur innblástur í andrúmsloft á tímum heimsfaraldurs, þegar mannleg nánd og tengsl eiga undir högg að sækja. „Að varpa ljósi á okkur í mannlegum tengslum. Ég held að við séum ofsalega næm fyrir því núna eftir alla þessa einangrun og sóttkví. Verkin sem við vörpum núna, við völdum þau vonandi til þess að geta haft eitthvað samtal.“

Kakó á brúsa og góði trefillinn

Hægur leikur er að ná öllum verkum í einni ferð, ýmist á göngu eða bílferð. „Ég mæli með að fara í góðan fatnað, taka góða trefilinn, jafnvel setja kakó í brúsa og taka gönguferð bara um miðbæinn. Maður getur farið á veitingahús og fengið sér góðan mat og tekið svo góðan göngutúr á eftir eða bara farið heiman frá sér. Labba um miðbæinn milli verkanna, þetta er í þeirri fjarlægð að þú nærð því alveg í góðum göngutúr. En ef þér er kalt þá geturðu tekið bílinn, þetta er allt í ökufæri líka. Síðan er hægt að setja útvarpið sitt á eða tónlist í símanum og ég bendi á að fara inn á mengi.is þar sem þau bjóða upp á stórkostlega tónlist sem passar líka við öll verkin án þess að þú þurfir að undirbúa eitt eða neitt,“ segir Helena. 

Hátíðin stendur fram á sunnudag, 17. apríl. Nánari upplýsingar má finna hér.