„Þetta er bara geggjað að vera komin í hópinn. Stelpurnar hafa tekið þvílíkt vel á móti mér og eru bara svo skemmtilegar,“ segir Ásdís Guðmundsdóttir sem fékk skyndilega stórt hlutverk í íslenska handboltalandsliðinu þegar Steinunn Björnsdóttir meiddist illa í fyrsta leik undankeppninnar.
Framundan eru tveir umspilsleikir við Slóveníu um sæti á HM og Ásdís er klár í slaginn.
„Ég bjóst nú ekki við því að spila svona mikið eins og ég gerði í öllum leikjunum. Steinunn er geggjaður leikmaður og ég lít upp til hennar en það kemur maður í manns stað og ég var klár,“ segir Ásdís sem upplifir ekki stress þrátt fyrir stærra hlutverk.
„Ég finn voða sjaldan fyrir stressi. Þetta er bara handbolti og það er ógeðslega gaman að spila handbolta. Auðvitað verður þetta erfitt verkefni en við erum vel skipulagðar og með góðan anda í hópnum,“ segir Ásdís.
Ásdís leikur með KA/Þór og býr því á Akureyri. „Það er aðeins öðruvísi að þurfa að mæta á æfingar fyrir sunnan. Ég er í vinnu og skóla og þetta er því svolítið púsluspil en það er bara geggjað að vera komin í landsliðshópinn.“
Leikur Slóveníu og Íslands er á laugardag klukkan hálffjögur og síðari leikurinn á miðvikudag í næstu viku klukkan 19:45 og verða báðir sýndir beint á RÚV.