„Við erum ekki margar eftir í hópnum sem fengum að upplifa HM fyrir tíu árum. Það var svo rosalega skemmtilegt og við eigum góðar minningar þaðan og ég vona svo að hinar stelpurnar í hópnum fái þá reynslu,“ segir Rut Jónsdóttir, landsliðskona í handbolta. Ísland mætir Slóveníu í umspilsleikjum um sæti á HM á laugardag og miðvikudaginn í næstu viku.

„Líkurnar fyrir leik eru kannski ekki með okkur í liði en það er allt hægt. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu verkefni og hef fulla trú á hópnum,“ segir Rut en Slóvenía er fyrirfram metið með sterkara lið. 

Ferðalögin tekið sinn toll

Rut lék í Danmörku í 12 ár þar til hún kom heim í sumar og leikur nú með KA/Þór. Landsliðsverkefnin nú, og æfingabann innanlands, hafa hins vegar gert það að verkum að hún hefur svotil ekkert verið heima hjá sér á Akureyri síðan í byrjun mars.

„Ég ratt skrapp heim í einn og hálfan dag um helgina en fyrir það var mánuður síðan ég kom heim til mín. Ég er svo heppin að hafa dásamlegt fólk í kringum mig, kærasta og fjölskyldu, sem sýna skilning og það skiptir miklu máli. Vonandi verð ég kominn heim svo 24. apríl,“ segir Rut. 

Leikur Slóveníu og Íslands er á laugardag klukkan hálffjögur og síðari leikurinn á miðvikudag í næstu viku klukkan 19:45 og verða báðir sýndir beint á RÚV.