Nýju gígarnir sem opnuðust í morgun raða sér nánast kurteisislega í línu við þá sem fyrir eru, sem er ekki skrítið því undir þeim er kvikugangurinn sem vísindamenn hafa talað um í fréttum undanfarin misseri. Í spilaranum hér fyrir ofan er hægt að sjá drónamyndir sem Þór Ægisson tökumaður RÚV tók í blíðunni á gosstöðvunum í dag.

Nýju gígarnir eru allavega þrír, mögulega fjórir, þegar ný sprunga opnast þarf að gefa þeim tíma til að sjá hvað úr verður. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands sagði fyrr í dag athyglisvert að það væri engin augljóst breyting á gígunum sem voru fyrir. Því eru nýju gígarnir líklega hrein viðbót við þá.

Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavörnum, flaug yfir gossvæðið með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag. Hann segir að úr lofti, og það sést líka á drónamyndunum frá Þór í spilaranum hér fyrir ofan, sjáist fjórir nýjir eldar sem brutu sér leið í gegnum hraunið sem fyrir var í morgun. Tveir þeirra, sem eru næst fyrsta gígnum í Geldingadölum, eru þétt upp við hvorn annan og gætu sameinast þegar fram líða stundir. Björn sagðist hafa séð átta gasstróka þegar hann flaug yfir svæðið. Hraunið er að meðaltali 14 metrar að þykkt samkvæmt mælingum frá sérfræðingum Háskólans.