Ekki verður byrjað að nota bóluefnið frá lyfjaframleiðandanum Janssen fyrr en það liggur fyrir hvort einhver tengsl séu milli bóluefnisins og blóðtappa. Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Fyrstu tölur frá Bandaríkjunum benda til þess að í einni af hverri milljón bólusetningu með bóluefninu hafi blóðtappa - aukaverkun sést. Fyrstu 2.400 skammtarnir af bóluefninu koma til landsins á morgun.

Lyfjafyrirtækið tilkynnti í dag að það hefði frestað dreifingu á bóluefninu í Evrópu á meðan Lyfjastofnun Evrópu meti hættuna á tengslum þess við blóðtappamyndun.

Svipar til bóluefnis AstraZeneca

Farsóttastofnun og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna vilja sömuleiðis að notkun bóluefnisins verði hætt þar um stundarsakir á meðan hugsanlegu tengsl eru rannsökuð. 

Miklar vonir eru bundnar við bóluefnið þar sem aðeins þarf eina sprautu af því til að mynda vörn gegn kórónuveirunni. Tvær sprautur þarf af hinum bóluefnunum þremur sem fengið hafa skilyrt markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Evrópu.

Fyrstu skammtarnir eru væntanlegir til landsins á morgun en Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við fréttastofu að beðið verði með að gefa þá skammta þar til Lyfjastofnun Evrópu hefur farið yfir málið.

Þórólfur bendir á að bóluefnið líkist bóluefni AstraZeneca og því komi ekki á óvart að aukaverkanirnar skuli vera svipaðar. „Það yrði mjög slæmt ef við gætum ekki notað þetta bóluefni. Það myndi breyta áætlun um bólusetningu töluvert ef bóluefnið yrði tekið út en við þurfum bara að sjá hver endanleg niðurstaða verður.“

Smitin í gær skyggðu á gleðina

Fyrr í dag var greint frá því að heilbrigðisráðherra hefði fallist á tillögur Þórólfs um tilslakanir á aðgerðum innanlands. Ný reglugerð tekur gildi á fimmtudag en þá getur fólk farið í leikhús, líkamsrækt og sund. 

Það skyggði þó aðeins á gleðina að þrjú smit greindust utan sóttkvíar í gær. Þórólfur viðurkennir að það sé áhyggjuefni enda engin tengsl á milli smitanna. „Ef við förum að sjá einhvern fjölda greinast núna þá þurfum við eitthvað endurskoða hlutina.“

Þórólfur vildi ekki nefna neina sérstaka tölu um hversu mörg smit þyrftu að greinast til að nýju minnisblaði yrði skilað til heilbrigðisráðherra en segir þetta sýna að veiran sé út í samfélaginu. „Það eru einhverjir einkennalausir og svo aðrir með einkenni sem hafa dregið að fara í sýnatöku.“

Þórólfur telur ekki að bólusetning sé farin að hafa áhrif en það sé þó gott að hægt hafi verið að vernda viðkvæmustu hópana með bóluefni. „Það sem hefur skilað mestum árangri núna eru þessar aðgerðir sem við höfum gripið til, að minnka samgang fólks.“ Hann segir að þau hafi síðan leitað í reynslubankann, sérstaklega úr þriðju bylgjunni, til að sjá hvernig væri best að standa að afléttingu nú.