Ráða þarf um 75 nýja lögreglumenn vegna styttingar vinnuvikunnar sem tekur gildi um mánaðamótin. Áætlað er að kostnaðurinn vegna þess nemi um 900 milljónum króna. Ekki liggur enn fyrir hvað ríkið er tilbúið greiða mikið af þessum kostnaði. Formaður Landssambands lögreglumanna segir að ef ekki verði ráðinn nægur mannskapur geti breytingin haft í för með sér aukna yfirvinnu.
1. maí tekur stytting vinnuvikunnar gildi hjá opinberum starfsmönnum. Í upphafi var gefið út að breytingarnar hjá ríkisstarfsmönnum gætu kostað um 3-4 milljarða. Kostnaðurinn er mestur hjá þeim sem eru í fullu starfi. Það á t.d. við um lögreglumenn sem eru flestir í 100% starfi og ganga vaktir allan sólarhringinn.
75 stöðugildi
Samkvæmt tölum frá embætti ríkislögreglustjóra er áætlað að það þurfi að ráða 75 lögreglumenn eða í 75 stöðugildi á öllu landinu. Hvert embætti sér um sínar mannaráðningar. Kostnaðurinn er metinn á um 900 milljónir króna. Ef bætt er við þörfinni á nýráðningum bæði hjá Landhelgisgæslunni og Fangelsismálastofnun er áætlað að alls þurfi um 100 ný stöðugildi og að kostnaðurinn nemi rúmum milljarði króna. Þessa stundina er verið að fara yfir þessar tölur í fjármálaráðuneytinu.
Vantar að auki 300 lögreglumenn
Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna segir að ljóst sé að fjölga verði lögreglumönnum vegna styttingar vinnuvikunnar. Hann bendir á að til viðbótar vanti að lágmarki um 300 lögreglumenn.
„Þannig að þetta gerir kannski stöðuna mun erfiðari en ella. Ef að liðið væri fullmannað í dag þá væri kannski vöntunin vegna vinnutímastyttingarinnar minni en það vitum við hins vegar ekki,“ segir Snorri. Hann hefur áhyggjur af því hvernig mál eigi eftir þróast. Lögreglumenn séu ekki á lausu. „Þú getur ekki sótt þér lögreglumenn á lager einhvers staðar en einhverjir með lögreglumenntun eru í öðrum störfum og jafnvel einhverjir sem hafa ekki fengið starf eftir útskrift úr háskólanáminu á Akureyri.“
Lögreglumenn ekki á lausu
Þó að metið sé að það þurfi að ráði í 75 stöðugildi hjá lögreglunni út um allt land er margt sem bendir til þess að lögregluembættin meti það svo að ráða þurfi enn fleiri. Lögregluembættið á Suðurnesjum telur að það þurfi að ráða 30 lögreglumenn vegna breytinganna sem verða 1. maí. Einnig er ljóst að útlærðir lögreglumenn eru ekki á lausu og þess vegna verði ráðnir afleysingamenn í einhverjum mæli. Heimilt er að ráða í afleysingar menn sem eru ekki með lögreglupróf en einungis til skamms tíma. Landssamband lögreglumanna hefur ekki upplýsingar um hvað ríkið er tilbúið að leggja fram mikið fjármagn.
Snorri bendir á að grunnstefið í styttingu vinnuvikunnar sé bætt starfsumhverfi, betri heilsa og betri líðan. Ef vel takist til eigi að vera hægt að ná þessum markmiðum. Það sé háð því að það fáist nægur mannskapur.
„Ef það næst ekki þá gæti þetta einfaldlega haft í för með sér aukna yfirvinnu. Það er alveg þvert á verkefnið sjálft.“