„Þegar þetta verkefni hófst var hlegið að okkur og sagt að Ísland væri alltof lítill markaður fyrir endurvinnslu á plasti og að það þyrfti að senda þetta allt úr landi," segir Sigurður Halldórsson, framkvæmdastjóri Pure North í Hveragerði. „Við fórum í að skoða þá þekkingu sem við höfum á jarðvarma og hvernig hægt væri að nýta hann til endurvinnslu."
„Við notum jarðvarmann, bæði þegar gufan kemur inn, þá notum við hana til að þurrka plastið og þegar hún kólnar niður og verður að heitu vatni þá notum við hana í þvottakerfið. Samkvæmt rannsóknum sem búið er að gera þá er þetta allt upp í níutíu prósent sparnaður í kolefnislosun, samanborið við endurvinnslustöðvar í Evrópu og Asíu, við notum minna vatn og minni orku, þannig að þetta er svolítið einstakt sem er að gerast hér," segir Áslaug Hulda Jónsdóttir sem er yfir viskiptum og þróun hjá Pure North.
Sigurður segir þegar ljóst að það sé hagkvæmt að endurvinna plast hér á landi og mun umhverfisvænna. Vandamálið sé hinsvegar að kerfið sé sniðið að því að flytja plastið úr landi til endurvinnslu og það þurfi að breytast.