Sextíu ár eru í dag síðan Rússinn Júrí Gagarín fór fyrstur manna út í geim. Forseti Rússlands segir landið þurfa að viðhalda stöðu sinni sem leiðandi kjarnorku- og geimvísindaþjóð.
Þann 12. apríl 1961 var geimferjunni Vostok 1 skotið á loft með hinum 27 ára Júrí Gagarín innanborðs. Geimfarið var á braut um jörðu í 108 mínútur áður en það lenti við borgina Engels á bökkum Volgu. Hann varð þar með fyrstur til að fara út í geim.
Sovétmenn voru afar stoltir af þessu afreki og hylltu Gagarín skömmu eftir að hann lenti. Þetta flug Gagaríns hefur síðan þá verið talið tákn um yfirburði Sovétríkjanna í geimnum á þessum tíma en fjórum árum áður höfðu þeir einnig orðið fyrstir til að senda gervihnött á braut um jörðu. Nú mega geimrannsóknir Rússa hins vegar muna sinn fífil fegurri.
Tímamótanna væri minnst í Rússlandi í dag, eins og árlega er gert. Vladimír Pútín forseti Rússlands lagði blóm á minnismerki um afrekið í Engels og notaði tækifærið til að ræða stöðu Rússlands í þessum málum. „Á hinni nýju 21. öld verður Rússland að varðveita stöðu sína sem eitt fremsta kjarnorkuog geimveldi heims vegna þess að geimiðnaðurinn er beintengdur vörnum þjóðarinnar. Ég ítreka það sérstaklega.“