„Þegar ég flutti hingað varð ég ástfanginn af landinu og hugsaði að þetta yrði minn staður að eilífu. En ég hugsaði líka; andskotinn: ég sakna maura! Ég vildi ekki gefast upp og vildi ekki trúa því að það væru engir maurar hér af því þeir eru eiginlega alls staðar. Þannig ég fór að hugsa leiðir hvernig ég gæti komist að því hvort það væru maurar eða ekki og hafði samband við meindýraeyði," segir líffræðineminn ítalski Marco Mancini.
Hann er heillaður af maurum og hefur verið frá unga aldri. Hann ásamt öðrum líffræðinema, Andreas Guðmundssyni, vinnur nú að verkefni í HÍ tengdu maurum þar sem þeir rannsaka meðal annars hvort finna megi risabú húsamaura í holræsakerfum borgarinnar en húsamaurinn er algengasta tegund maura hér á landi.
Margir telja enga maura vera á Íslandi en það er ekki raunin. Tegundirnar sem þeir hafa fundið eru fimm, fjórar sem lifa innanhúss en ein sem lifir í görðum.
„Húsamaurinn er algengastur, þeir ferðast í gegnum kerfið, undir Reykjavík. Fara svo upp og inn í hús og annað hús og þannig gengur það," segir Marco.