Stærðarinnar olíutankur á Seyðisfirði tók að halla eftir dýpkunarframkvæmdir í höfninni og er ekki þorandi að hafa í honum nema smáræði af olíu. Hafnarstjórinn telur að dýpkunarskip hafi farið of nálægt landi en Vegagerðin telur útilokað að dýpkun sé um að kenna.
Á Seyðisfirði er Olíudreifing með birgðatanka í höfninni til að afgreiða olíu til skipa. Árið 2017 fór siglingasvið Vegagerðarinnar í dýpkunarframkvæmdir og strax kjölfarið komu í ljós skemmdir á grjótvörn við bryggjuna. Í fyrra kom svo í ljós að annar tankurinn sem stendur þar spölkorn frá var farinn að halla.
„Það sem virðist hafa gerst er að við dýpkunarframkvæmdir árið 2017 þá hefur líklegast verið farið of nálægt landi og dýpkað of mikið og það gerir það að verkum að það hrynur hér úr kantinum og við sjáum það best á skemmdinni þarna við bryggjuna þar sem hefur hrunið niður glænýr grjótgarður. Skipið sem kemur hér til að dýpka þeir voru með stefnið eiginlega alveg upp í grjótgarðinn. Við viljum meina að þeir hafi komið of nálægt landi við að dýpka og þetta séu afleiðingarnar af því,“ segir Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði.
Vegagerðin viðurkennir áhrif á grjótvörn en ekki tank
Olíudreifing hefur gert formlega athugasemd til að tryggja hagsmuni sína. Fulltrúar Vegagerðarinnar skoðuðu aðstæður nýverið og vilja kanna nánar hvað gerðist. Samkvæmt frumathugun viðurkennir Vegagerðin að dýpkað hafi verið of nálægt sjóvörninni við löndunarbryggju en telur útilokað að dýpkunin valdi sigi á tankinum enda sé dýpkunarsvæðið 50 metra frá undirstöðum tankanna. Líklegra sé að öðru sé um að kenna. Athuga þyrfti hvort tankarnir séu nógu vel grundaðir, eins og það er kallað; hvort undirlagið sé nógu traust.
„Mér þykir nú trúlegt að þetta sé eitthvað tengt því hann fer á hreyfingu eftir þessar dýpkunarframkvæmdir. Vitaskuld þurfum við að fá að vita nákvæmlega hvað gerðist og við höfum verið að kalla eftir hönnunargögnum og öðru slíku sem við höfum ekki fengið enn þá. Við þurfum að fá niðurstöðu á því hvað gerðist og hvort það sé þá einhver bótaskylda. Ég held að hann sé hættur að hreyfast og það er engin stórhætta í augnablikinu. En það þarf ekki mikið til og ef það verður meiri hreyfing hér í kantinum þá gæti hann farið af stað aftur. Auðvitað höfum við áhyggjur af tankinum á meðan hann hallar svona og hann er ónothæfur eins og er. Þeir geta ekki sett í hann en hinn tankurinn við hliðina er í lagi enn sem komið er. Svo væri grafalvarlegt ef tankurinn legðist á hliðina. Þó það sé ekki mikið í honum þá er olía í honum sem færi þá út um allt," segir Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði.