Breski tannlæknirinn Christian Lee flutti nýverið til Ísafjarðar og hóf þar störf, eftir að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða lagðist í auglýsingaherferð út fyrir landsteinana. Hann er nú annar tveggja tannlækna í landshlutanum.
Hann segir bæði faglegar og persónulegar ástæður liggja að baki ákvörðun sinni um að koma til Íslands. „Persónulega þá er nú hentugur tími til að fara út í heim: mig hefur ætíð langað til að starfa erlendis og fá alþjóðlega sýn á tannlækningar.“
Vantaði tannlækni til Vestfjarða
Tannlæknaskortur blasti við á Vestfjörðum þegar annar tveggja tannlækna á Ísafirði komst á aldur í fyrra. Enginn tannlæknir á Íslandi sýndi áhuga á að taka við stöðunni, en þá brá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á það ráð að auglýsa út fyrir landsteinana. Christian sá myndbandið og sótti þá um starfið.
„Umsóknarferlið tók langan tíma. Ég sótt um í júní og kom svo loks hingað í janúar. Þetta var ekki rakið mál, en þess virði,“ segir hann.
Fékk sjokk í flugvélinni
„Fram til þessa er mun afslappaðra að vinna hér,“ segir hann um muninn á milli þess að starfa í Bretlandi og á Íslandi.
„Ég fæ góðan tíma með sjúklingunum hérna, sem er mjög notalegt og mikilvægt.“
Er eitthvað sem kom þér á óvart?
„Ekkert sérstakt; ég hafði fengið góðar upplýsingar um hvers var að vænta. Eina sjokkið var í flugvélinni á leiðinni til lendingar hér á Ísafirði. Það var dálítið áfall. Dálítið hrikalegt, en eina umkvörtunarefnið til þessa.“