Dr. Hannes H. Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að Snorri Sturluson hafi verið mistúlkaður. Frændi hans, Sturla Þórðarson, höfundur Íslendinga sögu í Sturlungu, hafi haft einhvers konar horn í síðu hans.

Heimskringla er átök tveggja hugmynda

„Heimskringla, held ég, er saga átaka tveggja hugmynda um lög og rétt, önnur er að lögin séu sammæli þjóðanna og hin að lögin séu fyrirmæli konunga,“ segir Hannes í viðtali í Speglinum.

Síðari skoðunin hafi verið að ryðja sér til rúms í Noregi en íslenska þjóðveldið hafi verið reist á fyrri skoðuninni. Snorri sjái þetta skýrar en margir aðrir vegna þess að hann standi á þessum tímamótum sjálfur.

Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers

Rætt var við Hannes í Speglinum vegna nýútkomins rits hans „Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers“, 24 frjálslyndir íhaldshugsuðir. Hugveitan New Direction í Brussel gaf hana út. Hannes segir að þessir 24 hugsuðir, þessir frjálslyndu íhaldsmenn, eigi það sameiginlegt að vilja halda í fengið frelsi.

Það frelsi sem er í rauninni ávöxtur af baráttu margra alda fyrir umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu einstaklinganna.

Hannes H. Gissurarson.

Íhaldssemi þeirra miðast við það. 

Siðferði, verðmætamat og heilbrigð íhaldssemi

„Jafnframt er þeim öllum sameiginlegt að telja að fyrir utan hinn frjálsa markað, sem sé mjög hagkvæmur og eðlilegur og skili miklum árangri, þá verði að koma siðferði, verðmætamat, heilbrigð íhaldssemi, virðing fyrir guðsótta og góðum siðum, eins og það var kallað í minni æsku,“ segir Hannes einnig.

Hinn frjálsi markaður krefst líka siðferðislegs grundvallar og þessi grundvöllur liggur í hefðbundnum gildum vestrænnar menningar.

Frjálslynd íhaldsstefna byrjar með John Locke

Hannes segir að telja megi að frjálslynd íhaldsstefna byrji með John Locke og „byltingunni dýrlegu“ 1688 í Bretlandi en engu að síður hafi hann haft með í hópnum tvo miðaldaspekinga, þá Snorra Sturluson og Tómas af Akvínas. Þeir voru báðir hlynntir því sem seinna var lagt til grundvallar í byltingunni, sem var uppreisnarréttur alþýðu segir Hannes. Hann segir að í ritum Snorra komi mjög vel fram að hann telji að konungurinn sé bundinn af lögum. Brjóti hann þessi lög þá megi þegnarnir setja hann af.

Snorri mistúlkaður

Hannes telur að Snorri hafi verið mistúlkaður og honum hafi verið verr borin sagan en eðlilegt sé vegna þess að greinilegt sé að frændi hans, Sturla Þórðarson, hafi haft einhvers konar horn í síðu hans. Sturla Þórðarson skrifaði Íslendinga sögu sem er stærsta verkið í Sturlungu. Hannes telur að Sturla hafi verið ákveðinn konungsmaður en Snorri hafi greinilega haft þá skoðun að Íslendingar ættu ekki að vera þegnar konungs heldur vinir.