Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, lýsti í Kastljósi ánægju sinni með nýja reglugerð heilbrigðisráðherra um skilyrði heimasóttkvíar og önnur viðbrögð við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Kári sagði hættu fylgja ferðalögum yfir landamæri og vill að allir sem hingað koma fari í fimm daga sóttkví. Hann gagnrýndi Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, og sagði hann hafa hunsað hagsmuni samfélagsins með ruddalegri aðferð.

„Mér finnst hins vegar með ólíkindum þessi dómur héraðsdóms. Ég held að það megi ekki draga af því annan lærdóm en að dómurum í héraðsdómi geti orðið á mistök eins og öðrum, og hitt að menn eigi ekki að setja nýja reglugerð 1. apríl, það er óheppilegur dagur fyrir reglugerð,“ sagði Kári um það að reglugerð sem skikkaði fólk í sóttkví á sóttkvíarhóteli skyldi úrskurðuð ólögmæt. Hann sagðist ánægður með nýju reglugerðina sem væri eðlileg viðbrögð við stöðunni eftir niðurstöðu héraðsdóms. „Ég held að hún nái ekki öllum þeim markmiðum sem fyrir reglugerð ætlaði að ná og ég held að það sé raunverulegur möguleiki á því að heilbrigðisráðherra snúi sér að því að skrifa viðbót við þau lög sem eru í gildi.“

Litakóðunarkerfi óraunhæft

Kári segir að sjálfur hefði hann gengið lengra en heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir og krafist þess að allir færu í fimm daga sóttkví og tvær sýnatökur við komuna hingað til lands. Þar á meðal börn með foreldrum sínum og fólk sem framvísaði skilríkjum um bólusetningu eða að það hefði áður smitast. Hann sagði reynsluna sýna að slíkt fólk gæti veikst og smitað aðra.

Stjórnvöld hafa stefnt að því að taka upp litakóðunarkerfi um næstu mánaðamót. Kári hefur litla trú á að sú verði raunin. „Ég held að það líti enginn á það lengur sem raunverulegan möguleika. Við skulum orða það þannig að ég held að menn geri sér grein fyrir því núna að það þýðir ekkert að gera áætlun langt fram í tímann þegar kemur að því að létta hömlum á hegðun.“

Ruddaleg aðferð við að hunsa hagsmuni samfélagsins

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt aðgerðir stjórnvalda á landamærunum, við litla hrifningu Kára. „Ég heyrði því fleygt að Brynjar Trump Níelsson hefði látið heyra frá sér frá Spáni þar sem hann sagðist hafa farið þangað og átt ekkert erindi til útlanda, og var á þann hátt að reka fingur framan í sóttvarnaryfirvöld sem mér finnst heldur vafasamt af kjörnum fulltrúa þjóðarinnar. Mér finnst það vera ruddaleg aðferð við að hunsa hagsmuni samfélagsins, hunsa tilraunir sóttvarnayfirvalda til að hlúa að heilsu fólksins í landinu, mér finnst það mjög ljótt.“

Kári sagði að verið sé að vega að persónufrelsi og svipta það borgararéttindum en það sé gert af nauðsyn til að vernda líf og heilsu fólks.