Heimamenn á Skagaströnd hafa síðustu mánuði undirbúið byggingu baðlóna í þorpinu til að laða þangað fleiri ferðamenn. Áætlaður kostnaður er fimmhundruð milljónir króna. Oddviti sveitarstjórnar segir alla velkomna í bað eftir tvö ár.

„Þetta í raun og veru snýst um það að við höfum hug á að stimpla okkur inn í ferðaþjónustuna. Við höfum kannski svolítið sofið á verðinum þar og ætlum að vera tilbúin í næstu bylgju ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Halldór G. Ólafsson, oddvit sveitarstjórnar á Skagaströnd.

Trúir því að útsýnið muni draga að fólk

Og leiðin til þess sé að reisa veglegan baðstað á Hólanesi, á sjávarbakkanum í miðju þorpinu á Skagaströnd. Þarna stendur til að byggja baðlaugar og heita potta ásamt þjónustuhúsi og aðgengi niður í fjöru. Af Hólanesi segir Halldór hægt að virða fyrir sér líflegt hafnarsvæðið og þaðan sé gott útsýni yfir Húnaflóa og Strandafjöll. „Og við bara trúum að það sé svo magnað að hingað vilji fólk koma.“

Stofnað verði hlutafélag um reksturinn

Áætlaður heildarkostnaður er um hálfur milljarður króna. Halldór segir fjármögnun tryggða að hluta og áætlað að henni ljúki á næstu mánuðum. Hönnun og skipulagsvinnu eigi að ljúka í ár og framkvæmdir ættu að geta hafist í haust. Það sé ekki ætlunin að sveitarfélagið standi í þessum rekstri eitt og sér, heldur eigi að stofna hlutafélag sem sveitarfélagið eigi hlut í ásamt fleirum. „Við höfum fundið fyrir töluverðum áhuga og þeir aðilar sem hafa verið að vinna með okkur hafa lýst yfir að þeir séu tlibúnir til að koma að þessu. Og síðan erum við bara að leita fyrir okkur með fjárfesta og fjármögnun,“ segir Halldór.

Útvega þurfi meira heitt vatn en nú er til staðar

Það er hitaveita á Skagaströnd en Halldór segir ljóst að útvega þurfi meira heitt vatn en nú er til staðar til að anna þörf nýs baðstaðar. Gert sé ráð fyrir slíkum stórnotanda í samningum um flutning á heitu vatni til Skagastandar. Og eftir tvö ár vonar hann að fólk geti komið og baðað sig á Hólanesi.