Hugsanlegt er að gossprunga opnist sunnar í Geldingadölum en þar sem nú gýs. Því leggur vísindaráð Almannavarna til að gönguleiðin þar verði færð. Nærri 40 þúsund hafa farið leiðina.
Falleg birta af mengunarskýjum
Hættulegar lofttegundir úr gosinu flugu hraðbyri út á sjó í norðanáttinni í dag. Þótt hættulegar séu var ekki annað hægt en dást að koparlitnum sem endurkastaðist úr mengunarskýjunum á sjóinn. Fáir bílar voru á gönguleiðarbílastæðinu í hádeginu enda hvasst.
Sama sprungan sem opnast á mörgum stöðum
Gos hefur byrjað á tveimur nýjum stöðum síðan vísindaráð Almannavarna kom síðast saman. Fyrirboðar að voru nánast engir. Og því var yfir nóg að fara á fundi ráðsins í dag.
„Það sem hefur gerst síðustu daga er að við höfum fengið lengingu sprungunnar. Þetta er sama sprungan en hún opnast á öðrum stöðum,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ. Hann er þeirra vísindamanna sem sitja í ráðinu.
Vísbendingar um meiri kviku
Efnið í kvikunni úr sprungunum er það sama og kvikan liggur mjög grunnt þarna, segir Magnús Tumi. Verið er að mæla hve margir rúmmetrar koma upp á sekúndu, í fyrradag voru þeir fimm til sex.
„Það eru vísbendingar um að hafi aukist að minnsta kosti þegar sprungur hafa opnast.“
Mælingar liggja líklega fyrir síðar í kvöld. En sprungan getur opnast víðar.
„Það var samhljómur um það að það væri möguleiki að hún lengdist eitthvað til viðbótar til norðurs og hugsanlega til suðurs þó við teljum það ekki líklegt.“
Ekki gott ef fólk gangandi þar sem sprunga opnast
Þrjátíuogsjöþúsund manns hafa þegar lagt leið sína um gönguleiðina í Geldingadali samkvæmt teljara Ferðamálastofu.
„Og það var nokkuð samdóma álits fólks á fundinum að það væri óheppilegt að gönguleið liggi um Geldingadali. Vegna þess möguleika sem er kannski ekki líklegur en verður að hafa í huga að sprunga gæti opnast til suðurs, sem sagt lengra til suðurs. Og þá er hún inni í Geldingadölum. Þá er ekki gott að hafa hóp af fólki þar inni þó að opnunin þurfi ekki endilega að vera svo gríðarlega hættuleg.“
Ekki að draga neitt úr þessu
Ekkert liggur fyrir um hve lengi gosið stendur.
„Eitt er þó alveg ljóst að við sjáum engin merki þess að það sé að draga neitt úr þessu.“