Nú gýs úr þremur gosopum í Geldinga- og Meradölum á Reykjanesskaga. Vísindamenn fóru í könnunarflug í gær og staðfestu þá að hraunbreiðurnar úr gosopunum þremur ná nú saman.

Hraun frá þriðja gosstaðnum sem opnaðist á miðnætti hefur runnið bæði til suðurs niður í Geldingadali og í norðaustur í áttina að gosopinu ofan við Meradali. Samfeld hraunbreiða er því á milli gosstaðanna þriggja sem í raun tilheyra einni og sömu gossprungunni yfir kvikuganginum við Fagradalsfjall.

Þór Ægisson, myndatökumaður RÚV, flaug dróna yfir svæðið í snjókomunni í gær og fangaði vel hversu mikilfenglegar jarðhræringarnar eru.