Í kvöldfréttum færeyska ríkisútvarpsins kemur fram að skattayfirvöld þar í landi séu með til skoðunar viðskipti færeysku útgerðinnar Framherja, sem er að hluta í eigu Samherja, við félög á Kýpur sem einnig eru í eigu Samherja. Í heimildamynd sem var sýnd í færeyska sjónvarpinu í gær kemur framkvæmdastjóri Framherja af fjöllum þegar hann er spurður um þessi sömu viðskipti.

Þetta er seinni hluti heimildamyndarinnar Teir ómettilegu eða Þeir óseðjandi sem fjallar um tengsl Samherjamálsins við Færeyjar. Í fyrri hlutanum kom meðal annars fram að Samherji væri talinn hafa brotið bæði færeysk og namibísk lög með því að skrá íslenska sjómenn á færeysk fraktskip, á meðan þeir voru raunverulega við störf á fiskiskipum við strendur Namibíu. 

Vildi ekki spyrja sjálfur

Í seinni hlutanum sem sýndur var í gær er vísað í umfjöllun Kveiks um starfsemi Samherja á Kýpur. Annfinn Olsen, framkvæmdastjóri færeyska útgerðarfélagsins Framherja, sem er í eigu Samherja og fjölskyldu hans sjálfs, virðist koma af fjöllum þegar fréttamaður Kringvarpsins ber undir hann viðskipti félagsins sem hann stýrir við félög á Kýpur - sem einnig eru í eigu Samherja.  „Erum við þar?“ Spyr Anfinn Jan Lamhauge fréttamann. 

Annfinn sagði að spyrja yrði Samherja út í þetta. Hann sagðist ekki hafa viljað spyrja sjálfur - því stundum væri betra að vita ekkert. Í frétt Kringvarpsins segir að árum saman hafi því verið haldið fram að Framherja sé í raun stýrt af Samherja, sem þó á aðeins fjórðung í félaginu. Í heimildamyndinni er einnig er rætt við Bjørn á Heygum sem hefur setið í stjórnum fjölda Samherjafélaga í Færeyjum, þar á meðal útgerðarinnar Framherja.  Myndina má sjá hér.