Arna Diljá Guðmundsdóttir hjá Hjálparsveit skáta í Hveragerði segir að um 500 lagt leið sína að gosstöðvunum í dag, en þar gekk á með dimmum éljum síðdegis. Systkini sem fóru að gosinu í þriðja sinn í dag sögðust vera háð því að fara.

„Það hefur bara gengið ágætlega. Það var fínt veður hérna þegar við opnuðum en svo hefur mengunin verið að færast í aukana úr nýjasta gígnum. Vindáttin er að breytast, hún mun koma yfir gönguleiðirnar svo við viljum koma fólki í burtu áður en það gerist,“ sagði Arna Diljá um klukkan átta í kvöld.

Þórir Halfdánarson og Arndís Hálfdánadóttir voru í þriðju heimsókn sinni við gosstöðvarnar í dag. „Það er ólýsanlegt að sjá þetta. Það er svo gaman að sjá hvernig þetta breytist í hvert skipti. Þetta er þriðja ferðin okkar.“

Þeim finnst hálfpartinn ávanabindandi að skoða gosið. „Að sjá þetta fara niður brekkuna er ennþá flottara. Setjast bara hérna niður og borða sitt slátur og drekka sitt Earl Gray, hvað er betra?“ segja þau hlæjandi.