Þetta er áframhaldandi sprunguopnun til norðausturs, segir Kristín Jónsdóttir fagstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands. Vísindaráð Almannavarna fundar á morgun. Þar verður hættan á gosstöðvunum endurmetin.
Á miðnætti í nótt var niðamyrkur og eina sem sást á vefmyndavél RÚV við Meradali var bjarmi til vinstri frá gosinu í Geldingadölum og svo til hægri gosið úr sprungunum sem opnuðust í fyrradag og hraunáin sem rennur úr þeim niður í Meradali.
Og svo fer að sjást nýr bjarmi á milli gosanna rétt fyrir ofan hraunánna. Þar hefur ný sprunga opnast.
Á upptökum úr vefmyndavél RÚV af Fagradalsfjalli sést svo hvernig hraunkvikan úr nýju sprungunni rennur niður í Geldingadali.
„Það má í rauninni bara segja að eldgosið hafi stækkað til norðausturs. Þetta er þessi nákvæmlega sama lína eins og sést greinilega á korti. Þetta er bara áframhaldandi sprunguopnun til norðausturs um einn kílómetra,“ segir Kristín Jónsdóttir.
Getur þá opnast frá Geldingadölum að þeim stað sem opnaðist annan í páskum, öll leiðin?
„Að öll leiðin opnist, já við getum ekkert útilokað að það gerist.“
Á þessu korti hér fyrir ofan tákna rauðu punktarnir þá staði þar sem gýs. Gulu línurnar tákna sprungur sem búið var að kortleggja og rauði punkturinn þar er einmitt nýja gosið.
Í sömu stefnu en aðeins norðar eru fleiri sprungur. Ekki er hægt að útiloka að þar fari að gjósa líka, segir Kristín.
Ekki er búið að mæla hve mikil hraunkvika kemur upp núna.
Eitt gasmælitæki rétt hjá nýju sprungunni hætti að senda upplýsingar í nótt:
„Við erum einmitt að reyna að bjarga því. Það var ansi nálægt hraunstraumnum þarna, nýja hraunstraumnum frá nýju gossprungunni.“
Vísindaráð ætlar að endurmeta hættuna á svæðinu á morgun.
Ný gönguleið
Búið er að opna nýja gönguleið og stika hana. Hún byrjar eins og sú gamla. Nú þarf ekki að fara kaðlabrekkuna heldur aðeins minni bratta. Hún sveigir í austur rétt áður en komið er þar sem gýs í Geldingadölum. Leiðin endar svo á góðum útsýnisstað þar sem sjá má gos úr öllum sprungunum.