Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir að ef hraun nái að flæða yfir Suðurstrandarveg verði það ekki fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Hann segir líklegt að hafið sé nýtt gosskeið á Reykjanesskaga. Horfur séu á að gosið nú mun standa yfir í langan tíma.

Nýja gosið telst meira og minna hrein viðbót við gosið í Geldingadölum. Því megi segja að það sé verið að tvöfalda framleiðnina. Hraun rennur nú í stríðum straum niður í Meradali. Hrauntungan teygir sig í suður, í átt að Stóra-hrúti.

„Ástæðan fyrir því virðist vera að fyrstu hraunin sem komu þarna niður hafa stífnað það mikið að þau eru illhreyfanleg og beina því hraunánni í suðurátt. Hraunið kemst ekki endalaust í suðurátt og á einhverjum tímapunkti mun það sveigja til austurs og halda áfram niður Meradali. Þá er spurningin hvort það fylli dalina eða hvort það fari sem mjó hrauná í gegnum dalina og áfram niður í sigdalinn við Núpshlíðarhálsinn.“

Ef þetta gerist mun þá hraunið renna yfir Suðurstrandarveg og út í sjó? Já, segir Þorvaldur en það þarf að halda áfram nokkuð lengi til að það gerist.

„Ef hraun fer yfir Suðurstrandarveg þá verður það ekki fyrr en einhvern tíma á næsta ári í fyrsta lagi,“ segir Þorvaldur.

Títuprjónsgat á blöðruna

Hann segir að gosin tvö eigi það sammerkt að þau eru lítil. 4-5 rúmmetrar á sekúndu velli upp úr iðrum jarðar. Hann segir að kvikan sé að koma frá mörkum möttulsins og jarðskorpunnar, á 17 til 20 kílómetra dýpi.

„Mér finnst líklegt að þetta sé kvika sem er í þró á þessu dýpi sem hefur verið að safnast í á síðustu 800 árum. Sú þró getur tekið við mjög miklu. En ef þú heldur áfram að bæta í hana verður yfirþrýstingur. Þegar leið opnaðist upp í gegnum þakið á þessari þró eða í áttina að yfirborðinu þá fór kvikan af stað.  Það er magnað að hafa þessa tengingu. Þessa pípu ef að maður getur sagt svo eða þessa sprungu sem er að tengja eitthvað sem er á 17 til 20 kílómetra dýpi beint við yfirborðið og hafa jafnvægi í slíku kerfi. Það finnst mér bæði skemmtilegt og merkilegt.“

-Það er vísbending um að þetta geti varað mjög lengi?

„Ég tel það. Framvindan í gosinu bendir til þess að gosið gæti staðið mjög lengi. Flæðið er jafnt. Við erum ekki með mjög yfirþrýst kerfi sem missir dampinn um leið og þú tekur tappann úr því. Heldur er þetta þannig að það er eins og einhver hafi stungið títuprjónsgat á blöðruna og það hripi smátt og smátt úr henni.“

Nýtt gosskeið að hefjast

Gossaga Reykjanesskaga er nokkuð vel þekkt síðustu 3 þúsund árin. Þrjú gosskeið hafa orðið á þessum tíma sem staðið hafa yfir lengi. Milli þeirra hafa liðið um 800 til 1000 ár. Getum við sagt að það sé að hefjast fjórða gosskeiðið?

„Manni finnst það líklegt miðað við það sem við þekkjum. Við sjáum þetta mynstur að við höfum 200 til 300 ára tímabil með tíðum gosum. Það koma kannski gos í hrinum, 20 til 30 ára hrinum. Það kemur svo pása og svo önnur hrina,“ segir Þorvaldur  Svo komi löng tímabil 500 til 1000 ár þar sem gýs ekki neitt. Það séu oft jarðskjálftar og hreyfingar á plötuskilunum en það komi engin kvika. Meðal tíminn á milli þessara gosskeiða séu 800 ár. 


„Það vill svo til að það eru 800 á frá því að það gaus síðast á Reykjanesskaga. Þannig að manni finnst allt benda til þess að við séum að fara inn í aðra goshrinu. Það sem kannski athyglisverðast við þessar goshrinur er að öll goskerfin fara af stað á Reykjanesskaga. Ekki bara eitt heldur eldar í raun úti á Reykjanesi og jafnvel alveg upp í Hengil. Ef við eigum að taka mark á jarðsögunni held ég að við séum að fara inn í skeið þar sem við getum fengið gos í öllum þessum kerfum. En hvort að það gerist á næstu árum þykir mér ólíklegt. Kannski dreifist þetta á næstu 200 til 300 ár,“ segir Þorvaldur.