Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að fari svo að Landsréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að lagastoð skorti fyrir reglugerð ráðherra um dvöl fólks frá áhættusvæðum í sóttkvíarhúsi þurfi annað hvort að breyta sóttvarnarlögum eða reglugerðinni þannig að hún rúmist innan laga.

Katrín, sem var gestur í Kastljósi kvöldsins, hefur ekki sannfæringu fyrir því að loka landamærunum þangað til búið verður að bólusetja meginþorra þjóðarinnar. 

Henni finnst niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í gær vera vonbrigði. Málið komi til með að skýrast betur á morgun þegar niðurstaða Landsréttar liggur fyrir en fari svo að ákvörðun verði staðfest séu tveir kostir í stöðunni til að tryggja sóttvarnir á landamærunum. 

„Til þess að ná því markmiði sé ég fyrir mér tvo valkosti. Annars vegar að skoða lögin og gera þau skýrari eða fara yfir framkvæmd þessara mála innan gildandi lagaramma og hvort við getum gert það betur.“

Katrín segist sannfærð um að núverandi fyrirkomulag á landamærunum, það er framvísun neikvæðs PCR-prófs og tvær skimanir með sóttkví á milli, hafi gefist mjög vel en því miður séu heimtur ekki hundrað prósent.

Mestu skipti að hafa úthald fram á sumar þegar búið verði að bólusetja 240 þúsund af þeim 280 þúsund sem til stendur til að bólusetja. Katrín sér þó ekki fyrir sér að loka landinu fyrir ferðalöngum, líkt og gert hefur verið í Nýja-Sjálandi. 

„Það væri auðvitað miklu, miklu róttækari ráðstöfun en sú sem stjórnvöld réðust í að leggja til að farþegar frá hárauðum löndum eyddu fimm dögum á sóttkvíarhóteli. Og ég eins og ég segi hef ekki haft endilega sannfæringu fyrir því að ganga svo langt.“