Í fyrra varð til nýtt sveitarfélag á Íslandi, Múlaþing. Þar voru sameinuð sveitarfélögin Borgarfjörður eystri, Djúpivogur, Fjótsdalshérað og Seyðisfjörður eftir að íbúar samþykktu fyrirkomulagið í kosningu haustið 2019. Íbúar Múlaþings eru um 5000 og langt er á milli byggðarkjarna og yfir fjallvegi að fara. Til að íbúar á jaðarsvæðum gætu haft áhrif á gang mála í sinni heimabyggð var búin til ný tegund stjórnskipulag, heimastjórnir.
Í ár á að kjósa í 11 sveitarfélögum á þremur svæðum um sameiningu við nágrannasveitarfélög, eins og Spegillinn hefur fjallað um að undanförnu. Að auki eru 8 sveitarfélög skemmra á veg komin í sameiningarpælingum.
Á Norðvesturlandi á að greiða 5. júní atkvæði í Blöndósbæ, Húnavatnshreppi, Skagabyggð og Sveitarfélaginu Skagaströnd. Það sameiningarverkefni er kallað Húnvetningur.
Á Norðurlandi eystra á að kjósa um sameiningu tveggja sveitarfélaga, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar. Verkefnið gengur undir heitinu Þingeyingur. Kosið verður í sveitarfélögunum á Norðurlandi 5. júní.
Á Suðurlandi er stefnt að atkvæðagreiðslu samhliða þingkosningum 25. september. Þar greiða íbúar í Ásahreppi, Rangárþingi ytra, Rangárþingi eystra, Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi atkvæði um sameiningu í 5300 manna sveitarfélag. Sameiningarverkefnið er kallað Sveitarfélagið Suðurland. Þar á jafnvel að taka upp heimastjórnarfyrirkomulag eins og í Múlaþingi.
Skoðum heimastjórnarfyrirkomulagið í Múlaþingi betur og hvernig það hefur reynst, þó að reynslan af því sé ekki ýkja löng og tímarnir óvenjulegir.
Í gömlu sveitarfélögunum fjórum kusu íbúar tvo úr sínum hópi beinni kosningu. Þriðji heimastjórnarmaðurinn er úr sveitarstjórn Múlaþings og það er formaður heimastjórnarinnar. Heimastjórnin annast störf sem sveitarstjórn felur henni. En hún getur ekki skuldbundið sveitarfélagið fjárhagslega.
Jódís Skúladóttir situr í sveitarstjórn Múlaþings fyrir hönd Vinstri grænna og er formaður heimastjórnar á Djúpavogi. Henni finnst heimastjórnar fyrirkomulagið hafa virkað ágætlega. Jódís er reyndar á því að forsenda sameiningarinnar hafi verið heimastjórnirnar og að með þeim héldist ákveðið vald í kjörnunum, til að mynda um hafnarmál, náttúruvernd og menningu.
„Við erum auðvitað að stíga okkar fyrstu skref og gera hluti sem ekki hafa verið reyndir áður hérlendis,“ bendir Jódís á. „Auk þess komu auðvitað skriðuföllin á Seyðisfirði. Það setti nú eiginlega allt á hliðina, þannig að það hefur kannski ekki verið hægt að meta það endanlega hvernig þetta er að virka en við erum mjög ánægð með það sem að af er þessu stutta tímabili, hvernig heimastjórnirnar koma út.“
Er þetta að einhverju leyti upp á punt? Til að friðþægja íbúana í jaðarbyggðunum?
„Nei, ég myndi ekki segja það. Við höfum reynslu af hverfaráðum og öðru og þetta hefur líka verið stóri vandinn í sameiningum í kringum landið þar sem að allt, bæði þjónusta og jafnvel ákvarðanataka hefur sogast inn á einhvern miðpunkt í stærsta kjarnanum. Það er auðvitað mjög bagalegt en ég held að þetta hafi verið rétt skref. Heimastjórnir hafa ákveðið vald og þá fyrst og fremst í skipulagsmálum og það er gríðarlega mikilvægt þannig að ég verð að svara því neitandi, þetta er ekki bara upp á punt fyrir sveitarfélögin,“ segir Jódís.
Rúnar Gunnarsson yfirhafnarvörður á Seyðisfirði er annar aðalfulltrúa íbúa í heimastjórninni þar. Honum þykir heimastjórnar fyrirkomulagið virka ágætlega, að mestu leyti.
„Hugmyndin er náttúrulega góð og tilraunarinnar virði að gera þetta en mér fyndist persónulega að það mætti vera aðeins stærra valdsviðið hjá heimastjórninni. Það er ekki komin mikil reynsla á þetta við erum bara búin að funda 6-7 sinnum. En helstu verkefnin sem við höfum haft er deiliskipulag. Við höfum fjallað um ofanflóðamálin í tengslum við þessa náttúruvá hér og einfaldari mál tengd nærsamfélaginu.“
Rúnar hefði viljað að heimastjórnirnar hefðu meiri völd og möguleika á að útdeila einhverju fé.
„Ég hefði viljað hafa meiri aðkomu að aðalskipulagi í okkar hluta af sveitarfélaginu. Til dæmis eins og stóra fiskeldismálið sem hefur verið hér til umræðu. Við fengum það eiginlega bara til umsagnar. Ég hefði gjarnan vilja hafa meiri aðkomu að því sem heimastjórnarmaður og íbúi í þessum byggðarkjarna. Við höfum nánast ekkert fjárveitingarvald. Mér hefði þótt allt í lagi að heimastjórnirnar hefðu, innan skynsemismarka samt, fjárúthlutunarvöld. Það væri gott ef það væri einhver fjárhagsáætlun eða áætlun fyrir heimastjórnina sem hún gæti gripið í til að bregðast hratt við hlutum sem þarf að laga,“ segir Rúnar.
Rúnar segist ekki hafa upplifað að flækjustig hafi aukist með hinu nýja stjórnsýslustigi, heimastjórn. En Jódís hefur áhyggjur af því. Ástæðan sé að hluta til sú að hve stutt er síðan nýja fyrirkomulagið var tekið í notkun.
„Við höfum alltaf lagt áherslu á það í heimastjórnum að þær verði ekki flöskuháls mála. Þetta er eitthvað sem við erum enn að slípa saman,“ segir hún. „Það er náttúrulega mjög bagalegt þegar einhver sendir inn erindi ef að það flækist á milli stjórnsýslustiga fram og til baka áður en ákvörðun liggur fyrir og kostar bæði tíma og peninga,“ segir Jódís.
Hún nefnir sem dæmi að Hitaveita Egilsstaða og Fella, sem nýverið var breytt í HEF veitur, hafi tekið yfir alla hitaveitustarfsemi í sameinaða sveitarfélaginu. Því fylgi ákveðið skipulagsvald. Umhverfis- og framkvæmdaráð, sveitarstjórn og það starfsfólk Múlaþings sem komi að skipulagsmálum þyrfti að halda fund og stilla saman strengi.
En hvað með sameininguna í heild?
Rúnar segist bæði heyra ánægju og óánægjuraddir í bænum. En sjálfum þykir honum sameiningin hafa gengið mjög vel. Góð samvinna sé á milli byggðakjarna.
„Það sýnir sig kannski best í þessu ástandi eftir skriðuföllin í desember að þetta stóra sveitarfélag var mun betur í stakk búið til að takast á við þessar hörmungar. Seyðisfjarðarkaupstaður hefði líklega verið í vandræðum.“
Jódís tekur í svipaðan streng og Rúnar og minnir á að skriðuföllin á Seyðisfirði hafi verið stórbrotnar náttúruhamfarir sem hafi sett byggðarlagið algjörlega á hliðina. Fólk hafi misst heimili og atvinnuhúsnæði auk þess sem ástandið hafi verið ótryggt og rýma hafi þurft aftur. Það hafi því verið styrkur fyrir Seyðisfjörð að vera hluti af stærri heild.
En þegar mikil orka fer í einn byggðakjarna, bitnar það þá ekki á hinum?
„Varðandi hina kjarnana, auðvitað er það þannig þegar svona stór atburður á sér stað og það er verið að slökkva elda hreinlega og í neyðarbjörgunaraðgerðum þá dettur engum í hug að vera að þusa yfir því að tími og áhersla sé þar,“ segir hún. „En auðvitað er þetta bara núna í komast í ákveðið ferli og það hefur auðvitað áhrif að starfsfólk skipulagssviðisins hefur haft í nógu að snúast á Seyðisfirði og eins sveitarstjórn og önnur fagráð en ég myndi ekki segja eða upplifa að það hefði bitnað á hinum kjörnunum,“ segir Jódís Skúladóttir sveitarstjórnarmaður í Múlaþingi og formaður heimastjórnar Djúpavogs.