Hafnar eru rannsóknir erlendis á virkni nýju covid-bóluefnanna fyrir börn og má búast við niðurstöðum innan nokkurra mánaða. Þetta segir Ásgeir Haraldsson, prófessor á barnaspítala Hringsins. Fyrstu niðurstöður úr könnun meðal íslenskra foreldra sýna að meirihluti þeirra vill láta bólusetja börn sín við Covid-19.
COVID-bóluefni fyrir börn innan nokkurra mánaða
Um 800 börn hafa veikst af Covid-19 hér á landi frá upphafi faraldursins, flest á unglingsaldri. Ásgeir segir að ný bóluefni séu yfirleitt prófuð fyrst á fullorðnum og fyrst þegar vitað er að þau teljast örugg er kannað hvort þau henti fyrir börn.
Rannsóknir á nýju covid-bóluefnunum eru hafnar í nokkrum löndum. Ásgeir segir að hann hafi orðið var við að foreldrar hafi áhuga á að láta bólusetja börnin sín. Fólk vilji geta ferðast og vilji að þau séu örugg. „Þannig að það er töluverður þrýstingur á að þetta gangi hratt. Það má vænta þess að innan nokkurra mánaða, hálfs árs, kannski næsta haust, að þá verði farið að bólusetja börn í meira mæli.“
Börn veikjast síður en veikjast þó
Vert sé að hafa í huga að þótt töluvert sé um að börn veikist af Covid-19 þá sé gott að hafa í huga að veiran smitar þau síður. Það sé vegna þess að ákveðnar yfirborðssameindir sem hún notar til að komast inn í frumur séu lítt þroskaðar í börnum. „Þannig að veiran finnur ekki leiðina inn í frumurnar. Engu að síður sýkjast börn og þó að það sé sjaldnar og þau veikist minna þá getur það gerst. Þau smitast, þau sýkjast og þau geta orðið alvarlega veik og við verðum að taka tillit til þess.“
Skylda lyfjafyrirtækjanna
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lagt áherslu á allir verði bólusettir. Fólk í ríku löndunum verði að gera sér grein fyrir því að ef kórónuveiran geisar áfram í fátækum löndum þá verði þar til stökkbreytingar og afbrigði sem borist geti til annarra landa. Því sé mikilvægt að bólusetja alla. „Svipað gæti verið upp á teningnum þó í minna mæli sé ef kórónuveiran fær að vera áfram í börnum og unglingum. Þar gæti hún verið til staðar, þar gæti hún breytt sér og þar gæti hún smitast áfram.“ Þess vegna er talið heppilegt að bólusetja börn.
„Já ég held að það sé mjög mikilvægt og fyrir því eru kannski fáeinar ástæður. Bóluefnið virðist afar virkt og mjög öflugt, með mjög fáar aukaverkanir. Þannig að það er ekki réttlætanlegt að halda því frá börnum. Og það á að vera skylda lyfjafyrirtækjanna sem framleiða þessi bóluefni að klára þessar rannsóknir svo þetta standi börnum einnig til boða.“
Mjög mikilvægt er að vita nákvæmlega hvernig þessi nýju bóluefni virka á börn. „Við vitum ekki alveg hvernig næsti faraldur verður og vonandi er langt í hann. Kannski mun hann ekki hlífa börnum og þá er eins gott að við vitum að þessi MRNA-bóluefni virki vel, hratt og örugglega fyrir börn jafnt og fullorðna.“
Íslenskir foreldrar vilja láta bólusetja börn sín við COVID-19
Íslenskir foreldrar hafa áhuga á að láta bólusetja börn sín við COVID-19. Ásgeir hefur ásamt Valtý Stefánssyni Thors, í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og starfsfólk innanhúss á Landspítalanum, gert rannsókn þar sem mörg þúsund foreldrar ungra barna voru spurðir um hvort þeir vildu að börn þeirra yrðu bólusett. Sendir voru út spurningalistar til þúsunda foreldra og einnig voru nokkur þúsund foreldrar sem taka þátt í rannsókn sem gengur undir nafninu VOFFI einnig spurðir. Spurt var hvort þeir hefðu áhuga á bólusetningu gegn Covid fyrir börnin ef hún væri í boði.
„Í eldri aldurshópunum var þetta á milli 80 og 90 prósent. Í yngri aldurshópunum, yngri en 4 ára er þetta svona milli 60 til 70 prósent.“ Endanlegar niðurstöður eru ekki komnar að sögn Ásgeirs og því eru tölur birtar án ábyrgðar. „Eftir því sem börn eru eldri þá vill fólk taka skrefið og fá bólusetningar gegn hættulegum sjúkdómum.“