Sveinn Aron Guðjohnsen verður í fremstu víglínu íslenska landsliðsins í fótbolta sem mætir Liechtenstein í undankeppni HM í Vaduz í kvöld. Sveinn Aron, sem er sonur aðstoðarþjálfarans Eiðs Smára Guðjohnsen, leikur þar með sinn fyrsta A-landsleik fyrir Íslands hönd. Eiður Smári kom ekki nálægt valinu á framherja að þessu sinni samkvæmt Lars Lagerbäck.

„Ég held að það sé mikilvægt að taka það fram að Eiður Smári kom ekki að valinu á framherja að þessu sinni. Fólk má ekki halda að hann sé þarna útaf föður sínum,“ sagði Lars í samtali fyrir leikinn og bætti við. 

„Ég hef sjálfur ekki séð mikið af Sveini. Ég hef aðeins séð hann spila í þessum tveimur leikjum á EM undir 21 árs svo ég þekki hann ekki vel. En ég hreifst mjög af honum á æfingunni í gær og leist vel á þessa hugmynd þegar Arnar ræddi þetta. Hann hefur nef fyrir markaskorun og er harður af sér. Ég styð Arnar heilshugar í þessari ákvörðun.“ Sveinn Aron er einn af fjórum leikmönnum sem voru kallaðir frá U21 liðinu frá Ungverjalandi til móts við A-landsliðið. Eiður faðir hans og afinn Arnór eiga samanlagt 161 A-landsleik fyrir Ísland.

Hannes er ennþá mjög góður markvörður

Rúnar Alex Rúnarsson, leikmaður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, fær svo tækiðfærið í markinu á kostnað Hannesar Þórs Halldórssonar. „Hannes er að mínu mati ennþá mjög góður markmaður. En það er á hreinu að hann er ekkert að yngjast og þetta er góður tími til að gefa Rúnari tækifæri,“ sagði Lars um markmannsstöðuna. 

Nánar er rætt við Lars um byrjunarlið Íslands í kvöld í spilaranum hér að ofan en svona lítur byrjunarlið Íslands út í kvöld:

Staða Nafn Landsleikir/mörk Aldur Félagslið
Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson 7/0 26 Arsenal
Hægri bakvörður: Birkir Már Sævarsson 96/2 36 Valur
Vinstri bakvörður: Hörður Björgvin Magnússon 35/2 28 CSKA Moskva
Miðvörður: Sverrir Ingi Ingason 38/3 27 PAOK
Miðvörður: Hjörtur Hermannsson 18/1 26 Brøndby
Miðja: Aron Einar Gunnarsson (f) 93/2 31 Al-Arabi
Miðja: Guðlaugur Victor Pálsson 25/0 29 Darmstadt 98
Miðja: Birkir Bjarnason 94/13 32 Brescia
Vinstri kantur: Arnór Ingvi Traustason 39/5 27 New England Revolution
Hægri kantur: Jóhann Berg Guðmundsson 78/8 30 Burnley
Framherji: Sveinn Aron Guðjohnsen 0/0 22 OB