Svefnlyfjanotkun barna hefur aukist mikið og er það áhyggjuefni, segir sérfræðingur í svefnvandamálum á Landspítala. Nokkurra mánaða biðlisti er hjá svefnmeðferðarteymi spítalans og þá leitar fólk annarra leiða. En það hjálpi ekki börnum að vera einungis á lyfjum, þau þurfi meðferð samhliða.
Lyfjastofnun sendi í dag í þriðja sinn brýningu til heilbrigðisstofnana, apóteka og læknastofa að fara vel yfir notkunarleiðbeiningar þegar skrifað er upp á dropana Alimemazin Orifarm. Notkun þeirra olli alvarlegri eitrun barns fyrr í mánuðinum, vegna þess að þeir eru áttfalt sterkari en Vallergan mixtúran sem það er vant að fá.
Lyfið er nánast eingöngu notað sem svefnlyf hjá ungum börnum, og samkvæmt tölum frá Landlækni hefur notkun þess farið vaxandi.
Svefnlyfjanotkun aukist mikið síðustu ár
Sérfræðingur í svefnvandamálum barna hjá Landspítala segir að lyfjanotkun við svefnvanda gangi í bylgjum. „Það hefur aukist núna síðustu ár, mikið. Biðlisti er að lengjast hjá okkur og ef að fólk er á biðlista geri ég ráð fyrir því að það leyti annarra leiða,“ segir Arna Skúladóttir sérfræðingur í svefni og svefnvandamálum barna
Landspítali er með þriggja manna teymi sem hjálpar foreldrum barna með svefnvanda. Þau bóka í meðferð sex vikur fram í tímann. „Það eru nokkrir tugir á biðlista, sem þýðir nokkuð margir mánuðir,“ segir hún. „Vandinn er í kerfinu sjálfu, heilbrigðiskerfinu finnst mér. Við vitum hvað þarf að gera, en við þurfum fólk til að gera það.“
Ekki í lagi að nota svefnlyf eitt og sér
Arna segir að þau hafi kallað eftir að fá aukinn mannafla á deildina. Yfirlæknir barnaspítalans sagði í fréttum okkar í gær einkennilegt að svo mörg börn þyrftu á svefnlyfjum að halda svo mánuðum og árum skiptir en Arna segir að þetta sé ekki fyrsta val foreldra. „Þér finnst það í lagi í smá tíma, en þú vilt ekki gefa þeim þetta mánuð eftir mánuð, fyrir utan hvað segir það manni - þetta er ekki að virka.“
Það þurfi að kenna barninu í leiðinni það sem það þarf að læra til að sofa. „Það er alveg flötur á því að nota svefnlyf, en ekki bara eitt og sér,“ segir Arna.
Yfirlæknir Barnaspítalans sagði í gær að læknar þyrftu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skrifuðu upp á lyfið, hvort ekki væru til aðrar lausnir fyrir þessi börn.
Eru læknar á gjafmildir á þessi lyf? „Ég held að þetta sé aðallega úrræðaleysi. Það er ekkert svo voðalega mikil þekking á þessu í heilbrigðiskerfinu sjálfu. Heldur ekki innan heilsugæslunnar.“