Sprengingin í Múlagöngum á dögunum er að mati bæjarstjórans í Fjallabyggð áminning um að göngin eru klædd innan með eldfimu efni. Hann undrast að lögregla skyldi ekki tilkynna bæjaryfirvöldum strax um atburðinn.
Sprengjan sprakk inni í rými, eða útskoti í göngunum, þar sem fyrir er gámur með búnaði fyrir ljós, neyðarsíma og ýmsskonar öryggiskerfi í göngunum. Þetta gerðist 18. mars og þótt öllu hafi nú verið komið í lag sjást enn ummerki á staðnum.
Ekki tekist að ná gögnum úr farsímum
Þá er rannsókn lögreglu ekki að fullu lokið því ekki hefur tekist að ná myndum og öðrum gögnum úr farsímum fjórmenninganna sem handteknir voru fyrir athæfið. Um er að ræða fólk sem áður hefur komið við sögu lögreglu, sem segir að fólkið neiti að opna símana. Gögnin séu mikilvæg til að varpa frekara ljósi á þessa atburðarás. Meðal annars hvort þetta hafi verið samantekin ráð hjá öllum hópnum.
Las um sprenginguna á Facebook
Elías Pétursson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, undrast að lögregla skyldi ekki tilkynna bæjaryfirvöldum strax um þennan atburð. „Hvorki mér né slökkviliðsstjóra var tilkynnt um þetta, við báðir lásum um þetta á Facebook.“ „Hafði þið eitthvað óskað skýringa því?“
„Já, ég hef óskað skýringa frá lögreglunni, aðallega af hverju ekki var haft samband við slökkviliðsstjórann. Og hef ekki fengið þær ennþá,“ segir hann. Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, segir að þar hafi rannsóknarhagsmunir ráðið. Lögregla hafi þurft að ljúka aðgerðum með sérsveit ríkislögreglustjóra áður en tilkynnt var um málið.
Áminning um að í göngunum er eldfim klæðning
Elías segir þennan atburð áminningu um að í göngunum er eldfim klæðning á veggjum. „Það sem við höfum talað um í mjög mörg ár er í rauninni það, ef það kemur upp að það kviknar í bíl hérna þá væri það mjög alvarlegur atburður. Vegna þess að klæðningin tekur í sig eld.“
„Við teljum að þetta sé algerlega óviðunandi“
Eins og RÚV hefur áður fjallað um vísar Vegagerðin meðal annars til þess að um þennan útbúnað gildi reglur frá þeim tíma sem göngin voru gerð um 1990. Elías segir bæjaryfirvöld mjög ósátt við þetta og fleira í göngunum. „Bæði að hér sé efni sem brennur, hér er ekki útvarpssamband, hér er slæmt símasamband inni í göngunum. Við teljum að þetta sé algerlega óviðunandi eins og er,“ segir hann.