Aron Einar Gunnarsson reiknar með að taka þátt í leiknum gegn Liechtenstein á morgun þrátt fyrir að hafa ekki tekið þátt í æfingu liðsins í dag. Hann segir gagnrýni á liðið af hinu góða en að munur sé á gagnrýni og ósönnum sögusögnum.

Landsliðsfyrirliðinn tók ekki þátt í æfingu liðsins í dag en reiknar þó með að vera klár í slaginn fyrir leikinn á morgun. Aron Einar er með smá verk í hægri kálfanum en segir það ekkert til að hafa áhyggjur af. Hann var þó hvíldur í dag enda tveir leikir búnir á stuttum tíma og erfið ferðalög að baki. 

Aron Einar segir að leikmenn Íslands þurfa að líta í spegil og stíga upp til að ná fram betri úrslitum en í fyrstu tveimur leikjunum. „Úrslitin duttu ekki okkar megin. Eins og við töluðum um eftir leikinn vorum við sjálfum okkur verstir og getum gert mun betur. Við höfum farið yfir það. Þurfum að lagfæra marga hluti og ég er staðráðinn í að það komi á morgun. Þurfum að líta inn á við og horfa í spegil. Gera þetta saman sem heild. Það er enginn að fara að gera það fyrir okkur,” segir Aron Einar. Hann segir að það sé mikill karakter í íslenska liðinu og þeir þurfa á því að halda til að stíga upp frá úrslitunum í síðustu tveimur leikjum.

Það vakti athygli að Helgi Kolviðsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Liechtenstein og fyrrum aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins var mættur á æfingu liðsins í dag en Aron segist ekki reikna með neinum innherja upplýsingum frá honum, til þess beri Helgi of mikla virðingu fyrir Liechtenstein. „En alltaf gaman að hitta Helga,” segir Aron Einar. 

Fjölmiðlaumfjöllun eftir síðustu leiki hefur ekki farið framhjá landsliðsmönnum Íslands en þeir reyna að láta umfjöllunina ekki hafa áhrif á sig. „Þetta er inn á öllum fjölmiðlum. Vissulega les maður og tekur eftir en maður er ekkert að láta það hafa áhrif á sig. Við stjórnum ekki umræðunni. En þegar liðið hikstar er gott að fá gagnrýni og við eigum hana alveg skilið,” segir Aron Einar.

Það þurfi þó að gera greinarmun á sanngjarnri gagnrýni og sögusögnum. „Þegar menn eru farnir að búa til sögur sem eru ekki réttar, það er ekki gott. Frekar að taka bara gagnrýnina og taka hana á sig, betrumbæta hlutina sem við getum bætt. Við getum ekki látið þetta hafa áhrif á okkur innan hópsins,” segir Aron Einar

Sigur á morgun er algjörlega nauðsynlegur ef Ísland á að eiga einhvern möguleika á sæti á HM árið 2022. Aron Einar segir íslenska liðið sterkara á pappír en mikilvægt sé að muna að ekkert fæst gefins í fótbolta. „Við töpuðum fyrir Liechtenstein 3-0 á sínum tíma og Eiður Smári tók þátt í þeim leik og talaði við okkur um að það er bara þannig að það er ekkert gefins í fótbolta. Þó að þú sért betri aðilinn þá þarftu að leggja þig fram til að ná í úrslit og þú verður að stíga upp og gera þetta sjálfur. Þetta kemur ekki að sjálfu sér. Held að það sé meginatriðið sem þurfum að einbeita okkur að á morgun, að gera þetta saman sem lið,” segir Aron Einar.