„Það var aðeins annað hljóð í honum þegar ég var búin að birta fimm greinar sem doktorsnemi,“ segir Kristín Jónsdóttir doktor í jarðeðlisfræði hjá Veðurstofunni. Þegar hún var ráðin í stöðu doktorsnema hjá háskólanum í Uppsala minnti prófessor hana á það hefði líklega hjálpað til að deildin fengi meira borgað fyrir hana því hún væri kona.
Kristín Jónsdóttir, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, hefur sannarlega verið áberandi í fréttum nýverið enda þyrstir fólk í fróðleik hennar og svör þegar náttúruöflin minna á sig eins og þau hafa sannarlega gert síðustu vikur. Kristín er gestur Sigmars Guðmundssonar í þættinum Okkar á milli í kvöld þar sem hún kveðst meðal annars hafa áhyggjur af því að síður sé tekið mark á konum en körlum og segir að það sé varhugavert hvernig fólk hafi frekar tilhneigingu til að gera athugasemdir við útlit kvenna í slíkum stöðum og að þeim sé frekar refsað fyrir mistök en karlkyns kollegum sínum.
Kristín var ráðin í stöðu doktorsnema við háskólann í Uppsala árið 2002 en þá var regla, sem hún vissi ekki af, að deildin fengi meira borgað fyrir kvendoktorsnema en karlkyns. Hún hafði verið við stöðuna í um hálft ár þegar hún var minnt á það að hún væri ekki endilega þar sem hún væri vegna eigin verðleika. „Ég fékk einhverja pillu frá prófessor um að það væri gott að fá mig því deildin fengi svo mikinn pening fyrir mig því ég væri kona,“ rifjar Kristín upp.
En það varð fljótt ljóst að Kristín ætti heima í deildinni og prófessorinn gaf ekkert slíkt í skyn aftur þegar hæfileikar Kristínar og metnaður varð ljós. „Það var aðeins annað hljóð í honum þegar ég var búin að birta fimm greinar sem doktorsnemi.“
Kristín naut mikillar velgengni í námi og hlaut meðal annars viðurkenningu frá AGU, American Geophysical Union, fyrir grein sína. „Ég stóð mig mjög vel í þessu doktorsnámi og fékk viðurkenningu fyrir eina grein, en það er líka annað. Það er þessi pressa á konur að þær vinni meira og standi sig framar körlum til að fá sömu virðingu og svipaðar stöður,“ segir hún og bætir því við að konum sé auk þess fremur refsað fyrir mistök en körlum. „Þetta vitum við allt en ég held að það þurfi mikið átak og aðgerðir til að breyta þessu.“
Sjálf fékk hún ekki almennilegt sjálfstraust í starfi fyrr en hún fór að fá viðurkenningar. „Þá hugsaði ég bara já, ég er líklega að gera eitthvað rétt.“
Sigmar Guðmundsson ræðir við Kristínu Jónsdóttur í Okkar á milli á RÚV í kvöld kl. 20.