Alma Möller, landlæknir, segir ekki tímabært að opna landamærin meira og hefur efasemdir um að taka upp litakóðunarkerfi 1. maí. „Ég tel að við eigum áfram að viðhafa ítrustu varkárni á landamærunum og að það sé kannski ekki tímabært að fara að opna þau meira,“ segir hún.
„Mér finnst að það eigi að gera allt sem hægt er til að lágmarka áhættu á að hingað berist smit. Það er auðvitað út af því að faraldurinn er á mikilli siglingu víða erlendis. Þessi afbrigði breyta leikreglum og síðast en ekki síst þá erum við ekki með nægilega stóran hóp bólusettan hér. Vissulega erum við búin að bólusetja þá elstu en með þetta breska afbrigði þá er fólk á öllum aldri að smitast,“ segir hún.
Alma segir góða stöðu á landamærunum forsendu þess að hægt sé að hafa það gott innanlands. „Þetta er búið að vera mikið lærdómsferli allt í kringum landamærin og auðvitað koma upp glufur og við reynum að bæta í þær. Núna eru það börn. Þau hafa ekki verið skimuð en það breytist frá og með fimmtudeginum. Það er að fólk hefur verið að brjóta sóttkví. Það er tekið á því með því að taka í notkun þessi sóttkvíarhús, og síðan eru það vottorðin. Við vitum að bóluefnin vernda gegn sjúkdómi en við vitum ekki hvort fólk geti áfram borið smit og líka hvort það geti smitast af nýjum afbrigðum þannig að það er spurningin með bólusetningarvottorðin,“ segir hún.
Samkvæmt litakóðunarkerfinu verða mis strangar reglur í gildi um komufarþega eftir því hver staða faraldursins er í því landi sem þeir koma frá. Komufarþegar frá löndum með lágan smitstuðul geta sloppið við sóttkví.
„Ég held að það kunni að vera of snemmt að hætta að skima og ég held að það geti verið erfitt að kóða sum lönd utan Evrópu þar sem er minna skimað og minna um upplýsingar,“ segir Alma.
Hún segist hafa efasemdir um kerfið. „Ég hef það á þessu stigi en ég held að þetta geti verið góð lausn þegar lengra er komið, þegar við erum komin með útbreiddara ónæmi hér innanlands og faraldurinn kannski ekki á svona mikilli siglingu.“