Barn á leikskólaaldri fékk fyrr í mánuðinum eitrun vegna svefnlyfs í dropum sem er áttfalt sterkara en mixtúran sem það er vant að fá. Svefnlyfjanotkun barna undir sex ára aldri hefur ekki verið meiri í tuttugu ár. Yfirlæknir á Barnaspitalanum segir einkennilegt að svo mörg börn séu á svefnlyfjum svo mánuðum og árum skiptir.

180 börn fengið dropana á tveimur mánuðum

Síðan í janúarlok hefur vallergan mixtúra, sem er svefnlyf fyrir börn, ekki verið fáanleg. Því skrifa læknar upp á dropa sem heita Alimemazin Orifarm og gera sama gagn en eru töluvert sterkari. Rúmlega 180 börn sex ára og yngri hafa fengið dropana á þessu ári. 110 þeirra eins eða tveggja ára. 

Innlögn vegna alvarlegrar eitrunar

„Ný formúla sem er komin til landsins og hún er áttfalt sterkari heldur en sú mixtúra sem var til áður. Það hefur komið upp mjög alvarleg eitrun sem við höfum þurft að leggja inn, vegna þess að það er verið að gefa sama skammt í millilítrafjölda eins og með gömlu mixtúruna,“ segir Ragnar Grímur Bjarnason yfirlæknir barnalækninga á Landspítala.

Ragnar segir að eitrunarhætta sé mikil vegna þessa, sérstaklega þegar fólk er vant að gefa gamla lyfið. Eitrunareinkenni geta verið meðvitundarleysi, síflog, krampar, hjartsláttartruflanir sem geta leitt til hjartastopps auk hás hita. „Og getur verið banvænt líka. Þetta er eitthvað sem þarf að taka mjög alvarlega,“ segir Ragnar Grímur jafnframt.

Mesta svefnlyfjanotkun meðal barna í 20 ár

Lyfið er notað nánast eingöngu sem svefnlyf hjá ungum börnum. Samkvæmt tölum frá Landlækni var notkun svefnlyfja í fyrra, meðal barna yngri en þriggja ára, sú mesta í tuttugu ár eða svo langt sem gögn Landlæknis ná sem fréttastofa er með undir höndum.

Í fyrra fengu um 160 eins árs börn þetta svefnlyf, í samanburði við í kringum 140 árin á undan. Samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu frá því fyrr í mánuðinum höfðu þá rúmlega tuttugu eins árs börn fengið svefnlyfið eða samheitalyfið. Síðan þá hefur fjöldinn tvöfaldast og þau eru nú orðin 43 sem hafa fengið þessa sterku dropa.

Einkennilega mörg börn á svefnlyfjum mánuðum saman

Um 125 tveggja ára börn fengu lyfið í fyrra og rúmlega fjörutíu það sem af er ári. Í fyrra fengu rúmlega 60 þriggja ára börn svefnlyfið og tuttugu á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Á aldursbilinu fjögurra til sex ára fengu tuttugu til fjörutíu lyfið í fyrra. 

„Það er mjög einkennilegt að það séu svo mörg börn sem þurfi á þessari meðferð að halda, svo mánuðum og árum skiptir. Ég held að kollegar okkar þurfi nú að athuga af hverju erum við að skrifa upp á svo mikið, getum við ekki fundið aðrar lausnir fyrir flest börn,“ segir Ragnar Grímur.