„Ég ber virðingu fyrir Guðjóni Þórðarsyni og lék undir hans stjórn á sínum tíma í landsliðinu en svona ummæli eru sorgleg og þetta eru bara hrein og klár ósannindi,“ segir Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, um ummæli Guðjóns Þórðarsonar í hlaðvarpinu The Mike Show, þar sem hann ýjaði að ósætti á milli Eiðs Smára Guðjohnsen, aðstoðarþjálfara, og Gylfa Þórs Sigurðssonar, landsliðsmanns.

„Það heyrðist nú bara á þessari umræðu og þessum vettvangi sem ummælin féllu. Þetta er fyrir neðan allar hellur og dæmir sig svolítið sjálft,“ segir Arnar. „Það er ekkert til í þessu.“

Aldrei í boði að velja Viðar Örn

Nokkur umræða hefur skapast um fjarveru framherjans Viðars Arnar Kjartanssonar í landsliðinu sérstaklega í ljósi þess að Alfreð Finnbogason er meiddur. Arnar Þór segir aldrei hafa verið í boði að velja Viðar vegna sérstakra Covid-reglna sem félög geta stuðst við. 

„Það var aldrei í boði að velja Viðar Örn. Vålerenga leyfði honum ekki að fara í þetta verkefni. Þetta var svipað og með Björn Bergmann hjá Molde nema í tilviki Viðars lokaði Vålerenga bara á dæmið strax,“ segir Arnar Þór.

Hópurinn ferðast nú til Sviss þar sem Ísland mætir Liechtenstein á miðvikudag.