„Óvæntir hlutir geta gerst og menn verða bara að vera tilbúnir þegar kallið kemur. Þannig maður tæklar það bara eins og það kemur,“ sagði miðvörðurinn Kári Árnason en Kári kom inn í byrjunarlið Íslands gegn Armeníu í kvöld þegar Ragnar Sigurðsson meiddist í upphitun.
„Þetta var erfitt. Við sköpuðum ekki nógu mikið af dauðafærum, þetta eru mest fyrirgjafir sem við kannski náum ekki í endann á. Þetta var erfiður leikur og við vorum ekki sjálfum okkur líkir,“ segir Kári.
Varnarmenn Íslands litu ekki allir nógu vel út í fyrra marki Armena í kvöld. „Ég ætla ekki að kenna einum né neinum um þetta. Við fáum á okkur mark sem lið og áfram gakk, en auðvitað verðum við að skoða það ef eitthvað fór úrskeiðis. Ég hef ekki séð þetta aftur.“
„Þetta er einn af þessum leikjum. Þetta er erfiður útivöllur, erfitt að sækja eitthvað hingað. En auðvitað ætlumst við til að gera betur og skapa fleiri færi og það er eitthvað sem við þurfum bara að fara í gegnum. Að mínu mati eru menn ekki að hóta nógu mikið aftur fyrir, við erum svolítið að leita að léttu leiðinni út á kant og fyrirgjöf, þegar tækifærið var oft að spila inn fyrir og það er eitthvað sem við þurfum að laga í okkar leik.“