Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í fótbolta var eðlilega svekktur með úrslitin og frammistöðu íslenska landsliðsins í Armeníu í dag. Ísland tapaði 2-0 í undankeppni HM. Fyrirfram var talið að Ísland ætti að vinna Armena á eðlilegum degi.
„Þú átt náttúrulega ekki að vinna neinn leik nema þú eigir það skilið. Í fyrri hálfleik áttu þeir einhver skot utan teigs. Við vorum ágætlega mikið með boltann en vorum ekki að skapa okkur neitt. Þeir voru kannski að vinna boltann meira en við, annan bolta. En svo kemur þetta mark sem við hefðum vanalega komið í veg fyrir. Þetta var frekar lélegt mark sem gefur þeim auðvitað mikið sjálfstraust. En við fáum auðvitað mjög gott færi til að jafna í 1-1. Hvað hefði gerst þá? Við vitum það ekki. En auðvitað þegar leikurinn fer 2-0 er þetta auðvitað ekki gott fyrir okkur. Við vitum það alveg,“ sagði Jóhann Berg við RÚV eftir leikinn.
En er komið stress í íslenska landsliðið eftir þessa síðustu leiki þar sem hvorki hefur gengið né rekið og þarf að bregðast almennilega við því? „Það er náttúrulega bara undir þjálfurunum komið. Þetta var náttúrulega ekki gott tap í kvöld. En við vitum að við þykjumst vera lið sem á að vinna Armeníu á útivelli þó það hafi gerst í kvöld. Auðvitað er það ekki sem ég á að svara. En þetta var bara ekki nógu gott. En það munar oft mjög litlu í fótbolta. Þetta datt með þeim í kvöld, en við vitum að við getum gert mikið betur,“ sagði Jóhann Berg.