Starfsfólk í leikskólum er hikandi við að vera stillt upp í framlínunni í COVID-faraldri og þarf meiri og betri upplýsingar um hættuna sem það stendur frammi fyrir, sagði Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla í Silfrinu. Hann sagðist trúa orðum sóttvarnalæknis þegar hann segi að hættan á smiti sé minni í leikskólum en á öðrum skólastigum. Það verði þó að gera meira til að sannfæra starfsfólk um að það sé rétt mat.
„Fólk er þreytt, fólk er hrætt við þessa veiru. Við erum að fá nýtt afbrigði, breska afbrigðið sem við þekkjum ekki og vitum ekki hvernig er að hegða sér úti í samfélaginu. Okkur þykir þetta bara of mikil áhætta að vera að taka,“ sagði Sigurður í Silfrinu. Hann sagði að stjórnendur leikskóla hefðu fengið upplýsingar úr fyrstu og þriðju bylgju faraldursins hérlendis sem sýndu að smit í leikskólum væru jafn tíð og í yngstu og miðdeildum grunnskóla, það væri aðeins elsta stigið sem hefði verið með mun fleiri smit. Nú væri öllum skólastigum lokað nema leikskólunum.
Hann sagði að starfsfólk leikskóla upplifi sig í þeirri stöðu að það sé í framlínustörfum en að sú staða sé ekki metin á sem skyldi, svo sem við forgangsröðun í bólusetningu. Leikskólastarfsfólk sé í áttunda af níu forgangshópum. „Og sá hópur er risastór, það eru margir inni í þeim hóp kennarar og fleiri. Ef við förum út í það þá krefjast starfsmenn þess að þeir verði settir fremstir í þann hóp, innan þess hóps.“