Jón Dagur Þorsteinsson, fyrirliði U21-árs liðs Íslands, var svekktur eftir tapið gegn Danmörku í dag. Hann er þó ánægður með karakterinn í liðinu og segir mikilvægt að hópurinn njóti þess að vera saman í Ungverjalandi.
Íslenska liðið lenti undir snemma leiks og á 20. mínútu komst Danmörk í 2-0. Jón Dagur var ánægður með karakter íslenska liðsins í kjölfarið og segir liðið hafa náð betri tökum á leikáætlun sinni í seinni hálfleik þar sem liðið skapaði sér ágætis færi. „Mér finnst hreint ótrúlegt að við höfum ekki náð að skora í þessum leik. En það er bara eins og það er. Við bara förum í næsta leik,” segir Jón Dagur.
Besta færi Íslands kom undir lok fyrri hálfleiks þegar liðið fékk víti. Sveinn Aron Guðjohnsen fór á punktinn en markvörður Dana varði. Jón Dagur segir að vítið hafi kveikt ákveðinn neista í íslenska liðinu. „Við gáfumst aldrei upp og fengum færi í kjölfarið. Þetta var ekki alveg að detta með okkur í dag,” segir Jón Dagur.
Liðið hefur nú tapað báðum leikjum sínum en Jón Dagur segir að ekki sé hægt að dvelja við það þrátt fyrir að það sé alltaf erfitt að tapa. „Maður vill aldrei tapa fótboltaleikjum, það er alltaf erfitt. Maður er ekki vanur því og við reynum bara að njóta ferðarinnar. Þetta er hörkuskemmtileg ferð og góð reynsla fyrir hópinn, fyrir alla. Við reynum að njóta þess saman og gera það besta úr þessu,” segir Jón Dagur.
Jón Dagur tekur jákvæða hluti úr leiknum í dag og segir tapið gegn Rússlandi í fyrsta leiknum vera meira svekkjandi þar sem íslenska liðið var langt frá sínu besta. „Mér finnst meira svekkjandi hvernig við töpum honum. Mér fannst við sýna meiri karakter í dag, sýna meiri vilja og neista og koma til baka eftir erfiða byrjun. En restin af ferðinni, verðum bara að njóta þess að vera saman og klára þetta eins og menn. Það er ekkert flóknara en það,” segir Jón Dagur.