Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði karlalandsliðsins í fótbolta, segir að búast megi við hörkleik gegn Armeníu í undankeppni HM á morgun. Þeir séu með gott sjálfstraust og gefi ekkert eftir.

 

Íslenska liðið æfði á keppnisvellinum í Yerevan í morgun. Snjó kyngdi niður meðan á æfingunni stóð.

„Völlurinn virðist vera ágætur þarna undir, okkur fannst það. Grasið er ekkert of mjúkt þannig að það á eftir að hitna á morgun, verður kannski aðeins blautur en það er allt í lagi. Fínt að fá smá snjó á sig,“ segir Aron Einar.

Aron Einar er Akureyringur og þar snjóar nú reglulega. Hann býr og spilar hins vegar í Katar þar sem aldrei snjóar.

„Við erum ýmsu vanir og fínt að fara back to basics, fara í snjó og fá smá tilfinningu fyrir því.“

Aðeins eitt lið fer áfram úr hverjum riðli í undankeppni HM og liðið í öðru sæti fer í umspil. Hver leikur er því ákaflega mikilvægur.

„Við vitum það að þetta er gífurlega mikilvægur leikur upp á framhaldið. Að koma hingað á útivöll á móti liði sem er með mikið sjálfstraust. Þeir hafa unnið fjóra af síðustu sex og hafa verið að spila ágætlega. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að ná í góð úrslit á morgun. Við þurfum að ná í þrjá punkta og það er ætlunin. Við verðum að eiga betri leik með boltann á morgun til að skapa okkur þessi færi sem við viljum komast í til að vinna leikinn. Að sama skapi þurfum við að vera skipulagðir og fá ekki færi á okkur,“ segir Aron Einar.

„Þeir eru ekkert að fara að gefa okkur neitt. Þeir eru sprækir og vel samæfðir. Þeir komu tilbaka frá Liechtenstein með þrjá punkta og vilja klárlega halda áfram að safna stigum þannig að þeir verða dýrvitlausir. Við megum búast við hörku frá þeim á morgun og þurfum að halda ró okkar.“

Áhorfendur eru leyfðir á íþróttaviðburðum og verða 4.000 áhorfendur á leiknum.

„Bara flott. Ég veit ekkert hvernig staðan er hérna covid-lega, hef ekki spurt að því. Það verður gaman að spila fyrir framan áhorfendur aftur. Gaman að fá smá læti á völlinn,“ segir Aron Einar.

Leikur Armeníu og Íslands hefst klukkan 16:00 á morgun og er sýndur beint á RÚV og lýst beint á Rás 2. Upphitun hefst á RÚV klukkan 15:15.