Á tímum samfélagsmiðla hefur stefnumótamenning breyst talsvert, að mati Indíönu Rósar, kynfræðings, og Mikaels Emils. Fólk kynnist á samfélagsmiðlum, á Facebook, Instagram og Twitter, en fólk notar líka smáforrit eins og Smitten og Tinder sem auðvelda fólki að kynnast öðrum til að sofa hjá, „deita“ eða jafnvel giftast.

Indíana og Mikael ræða ýmsar hliðar kynlífs og sambanda í hlaðvarpsþættinum Klukkan sex. Í þætti vikunnar ræða þau stefnumótamenninguna á Íslandi, vinsæl stefnumótaforrit og samfélagsmiðla sem hafa orðið stór hluti af stefnumótamenningu landsins.

Forritin hjálpa fólki ekki síst þegar heimsfaraldur geisar og fátt annað er í boði þegar lítið fer fyrir samkomum þar sem fólk getur hitt og kynnst nýjum verðandi mökum eða hjásvæfum. „Á tímabili gastu ekki farið í skólann, þú gast ekki farið að skemmta þér, þú gast ekki einu sinni farið í pílu eða keilu," segir Indíana og bætir við að það hljóti að verða til þess að fólk hafi fært „deit" lífið meira yfir á netið.

En hvernig er best að „deita“? Indíana segir heiðarleiki vera grundvallarþátt í samböndum fólks, hvort sem það ætlar einungis að stunda kynlíf eða leyfa sambandinu að þróast lengra.

„Það er mikilvægt að fólk sé hreinskilið þegar kemur að væntingum sínum. Þessar væntingar mega og geta breyst með tímanum en hreinskilin samtöl geta vonandi komið í veg fyrir brotin hjörtu seinna meir,“ bætir hún við.

Það megi hreinlega líta á heiðarleika í samböndum sem væntingastjórnun því höfnun geti verið fólki erfið, sérstaklega eftir því sem líður á og væntingarnar eru ólíkar. Fólk sem er með lágt sjálfsmat og hefur áður verið beitt einhvers konar ofbeldi getur til að mynda átt erfiðara með höfnun en fólk sem er ekki með lágt sjálfsmat eða hefur ekki orðið fyrir ofbeldi.

Indíana og Mikael velta einnig fyrir sér hver munurinn sé á því að vera á skotin, hrifin og ástfangin og hversu langt sé þar á milli. Þau ræða muninn út frá sinni eigin upplifun en Indíana segist auðveldlega geta orðið skotin og hrifin af fólki en Mikael á erfiðara með það. Þau rifja sömuleiðis upp unglingsárin þar sem það gat þótt stórmál að verða skotin í einhverjum. 

Indíana Rós Ægisdóttir og Mikael Emil Kaaber ræddu stefnumótamenningu í níunda þætti af Klukkan sex. Brot úr þættinum má heyra í spilaranum hér fyrir ofan en þátturinn er aðgengilegur í heild sinni á UngRÚV.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum.