UNICEF á Íslandi hvetur vinnuveitendur til að sýna foreldrum skilning í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða. Jafnframt að senda skýr skilaboð til starfsmanna um að hægt sé að forgangsraða verkefnum. Hætt sé við að fólk sem vinnur heima hjá sér sinni börnum sínum yfir daginn og öll vinna sitji eftir.

Þetta var meðal þess sem Eva Bjarnadóttir teymisstjori innanlandsverkefna hjá UNICEF ræddi í síðdegisútvarpi Rásar 2.

Í fyrsta sinn frá því að heimsfaraldurinn braust út hefur grunnskólum á Íslandi verið lokað. Á vef UNICEF eru vinnuveitendur brýndir til að gefa foreldrum tækifæri til að sinna börnum sínum og setja þannig hagsmuni þeirra í forgang.

Sóttvarnaraðgerðir hafi verið hertar til að vernda börn gegn faraldrinum, því sé nauðsynlegt að samfélagið sameinist um að börn njóti umönnunar meðan skólalokanir standa yfir. 

Eva sagði aðstæðurnar vera þannig að auk grunnskólabarna væru mörg leikskólabörn heima. Fjöldi fólks hafi upplifað það í fyrstu bylgju faraldursins að vera mikið heima með börnin sín.

„Þá vitum við það við sitjum ekki öll við sama borð þegar kemur að þorfum og því tilliti sem tekið er til foreldra. Því voru send hagnýt ráð til vinnuveitenda,“ sagði Eva og að aðstæður fólks væru misjafnar.  „Fjölmargt framlínufólk þarf að sinna vinnu sinni.“

Hún sagði jafnframt að margir byggju við óöryggi í atvinnumálum vegna efnahagsástandsins búa við atvinnuóöryggi, því væri í mörg horn að líta.

„Það er gott að vinnuveitendur sjái hvar hægt sé að koma betur til móts við foreldra en nú þegar er gert.“ Eva segir frumkvæðið hafa komið frá UNICEF en mikið hafi verið hugað að þessu frá því að faraldurinn skall á.

„Í fyrstu bylgjunni tókum við þátt í viðbrögðum stjórnvalda og bentum á þá hættu sem stafar að börnum sem búa á heimilum þar sem ofbeldi ríkir. Erlendis er algengt að skólar loki vegna COVID-19 og þar er mikið fjallað um þau slæmu áhrif sem fylgja skólalokunum á börn.“

Hér hafi ekki þurft að fjalla mikið um það en að tækifærið hafi verið gripið til að benda á þessi atriði. „Við vildum líka benda á hvernig þessi aukning í smitum meðal barna geti haft áhrif á þau og hvernig foreldrar geta stutt við börnin sín í því.“

Íslensk börn eru mjög meðvituð um faraldurinn og áhrif hans, að því er fram kemur á vefsíðu UNICEF. Því er lagt að  foreldrum að ræða áhyggjur barnanna við þau. Ekki þurfi að leysa allan vanda en að góð hlustun beri merki um samkennd og skilning. 

Vinnuveitendur séu  því hvattir til að gera raunhæfar væntingar svo fólk verði ekki algerlega yfirkomið af vinnu eftir þetta tímabil.