Albanskur karlmaður hefur játað að hafa orðið Armando Bequiri, ríflega þrítugum fjölskylduföður frá Albaníu, að bana fyrir utan heimili hans í Rauðagerði í Reykjavík um miðjan síðasta mánuð.. Þetta kom fram á fréttamannafundi lögreglu vegna rannsóknar málsins í dag.
Strax var ljóst að um manndráp af ásetningi hafi verið að ræða. Armando var skotinn níu sinnum í búk og höfuð með 22 kalibera skotvopni. Þegar mest var voru 14 einstaklingar í haldi vegna málsins.
Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar sagði á fundinum að rannsóknin hafi verið afar umfangsmikil og nauðsynlegt að lögregla héldi að sér upplýsingum. Alls voru 17 leitir framkvæmdar í húsnæðum, ökutækjum og á víðavangi. Um 30 lögreglumenn hafi unnið að málinu þegar mest var, og fleiri þegar framkvæmdar voru leitir.
Byssan fannst í sjó
Byssan sem notuð var fannst í sjó undan ströndum Reykjavíkur eftir leit lögreglu. Hún er enn í rannsókn, en um er að ræða skammbyssu með hljóðdeyfi. Henni var stolið en leyfi var fyrir henni hér á landi. Fram kom á fundinum að játning í málinu ein og sér væri ekki nóg, en hún passi þó við gögn sem fyrir liggja.
Rannsóknin er hins vegar enn í fullum gangi, meðal annars hvort áform eru um hefndaraðgerðir vegna morðsins en það tengist skipulagðri glæpastarfsemi og mögulegu uppgjöri milli hópa. Fíkniefnaviðskipti og peningaþvætti koma þar einnig við sögu. Lögregla hefur gert ráðstafanir vegna mögulegra hefndaraðgerða, en gefur ekkert upp um slíkt.
Hætta á fölskum játningum
Lögreglan var um tíma gagnrýnd fyrir litla upplýsingagjöf í málinu. Margeir segir að það hafi verið nauðsynlegt þar sem skipulagðir brotahópar eins og hér um ræðir láti jafnvel einstaklinga taka á sig sök í málum sem viðkomandi kom ekki nálægt. Þess vegna hélt lögregla vel að sér höndum svo upplýsingar færu ekki á flakk.
Margeir sagði að maðurinn sem nú hafi játað gerði það ekki fyrr en gögn málsins voru búin að mála hann út í horn, áður hafi hann staðfastlega neitað. Því sé ekki grunur um falska játningu. Maðurinn sem játaði er frá Albaníu, en hefur búið hér á landi síðustu ár.
Umfangsmikið mál sem hefur áhrif á málshraða annarra
Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs, sagði að um 100 kröfur hafi verið lagðar fyrir dómstóla í málinu sem undirstriki umfang rannsóknarinnar. Þrír ákærendur hafi unnið í málinu, sem hafi lengt málshraða annarra mála. Afleidd brot, svo sem vegna fíkniefnaviðskipta og peningaþvættis, eru einnig undir í málinu og einnig gæti verið gefin út ákæra vegna þess.
Margeir vildi ekki fara út í ástæðu morðsins, en lögregla telur sig vera með hana á hreinu. Rannsókn er enn í fullum gangi, til dæmis um tilefni morðsins, en málið verður sent ákærusviði eftir tvær til þrjár vikur.