Fyrsti leikur Íslands á Evrópumóti undir 21 árs landsliða var í dag þegar liðið mætti Rússlandi í Ungverjalandi. Jafnræði var með liðunum til að byrja með en um miðjan fyrri hálfleik tók við góður kafli Rússa sem kláraði leikinn fyrir þá. Svo fór að Rússar unnu öruggan sigur.
Rússar komu inn í þetta mót sem sigurvegarar síns riðils í undankeppninni. Þar fékk liðið einungis á sig fjögur mörk og því var ljóst frá byrjun að leikurinn yrði krefjandi sem frumraun fyrir íslenska liðið í dag.
Í upphafi leiks tókst íslenska liðinu að halda því rússneska í skefjum og það var ekki fyrr en um tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum sem fyrsta alvöru færi Rússa leit dagsins ljós, þá átti Fedor Chalov framherji Rússa gott skot á mark sem Patrik Gunnarsson varði.
Róbert Orri Þorkelsson varð síðan fyrir því óláni að brjóta af sér innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Hana tók Chalov og skoraði af öryggi. Allt virtist stefna í að svoleiðis yrði staðan í hálfleik en eftir frábært samspil tætti rússneska liðið vörn Íslands í sig eins og hún lagði sig og skoraði að lokum gott mark en þar var að verki Nair Tiknizyan. Og Rússar voru ekki hættir, skömmu síðar gerðust íslensku strákarnir aftur sekir um slæm mistök varnarlega og það nýtti hinn 17 ára gamli Arsen Zakharyan sér og skoraði. Staðan því 3-0 í hálfleik.
Í seinni hálfleik komust Rússar snemma í 4-0 eftir gott mark frá Denis Makarov en þá loksins kom smá svar frá íslenska liðinu og eftir góða sendingu Willums Willumssonar þá skallaði Sveinn Aron Guðjohnsen boltann í netið. 4-1 og þar við sat. Í kjölfarið gerðu bæði lið margar breytingar á sínum liðum og við það róaðist leikurinn töluvert.
Næsti leikur Íslands er gegn Danmörku á sunnudaginn klukkan 13:00.