Davíð Snorri Jónasson stýrði undir 21 árs landsliði Íslands í fyrsta sinn í dag þegar liðið tapaði 4-1 gegn Rússum í fyrsta leik liðsins á lokamóti EM. Davíð segir að slæmur kafli liðsins rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins hafi gert út um leikinn fyrir liðið.

„Mér fannst við vera með stjórn þó þeir hafi verið töluvert meira með boltann til að byrja með. Svo fáum við vítaspyrnuna á okkur og svo kemur vondur kafli sem drepur leikinn fyrir okkur,“ sagði Davíð sem tók við liðinu af Arnari Frey Viðarssyni og Eiði Smára Guðjohnsen fyrir lokamótið.

„Það sem við reyndum að leysa í hálfleik var að leysa færslurnar betur hjá öllum, klára betur stöðurnar einn á einn og stíga betur inn í menn og mér fannst í seinni hálfleiknum að við vorum fókúseraðri á að gera betur.“

Ísland náði að skora eitt sárabótamark en það gerði Sveinn Aron Guðjohnsen í stöðunni 4-0.

„Mjög gott mark sem við skorum og gott hjá Svenna að klífa þarna yfir þá og mikilvægt að skora þannig við tökum það.“